144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

fjöldi óundirbúinna fyrirspurna.

[15:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð forseta um að hann hafi dagskrárvaldið í þinginu, en það var svo áberandi í þetta skipti að hann sótti það annað, það er það sem er gagnrýnivert. Ég mundi telja að hæstv. forseti væri maður að meiri að ljúka því sem hann var byrjaður á að kynna og hv. þingmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir fengi að taka til máls og ljúka sínu máli, líka vegna þess hvernig óundirbúnar fyrirspurnir hafa verið á undanförnum vikum og hvaða ráðherrar hafa verið hér í sal til svara. Það skiptir okkur mjög miklu máli í þinginu að fá tækifæri til þess að eiga orðastað við ráðherra. Það er ekki verra ef fleiri komast að en færri til þess að fylgja málum eftir. Ég skora því á hæstv. forseta að ljúka umræðunni í samræmi við það sem hann sagði í fyrstu, en ekki að taka við valdboði frá ráðherrum sem taka sífellt meira og meira til sín af völdum frá Alþingi.