144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

fjöldi óundirbúinna fyrirspurna.

[15:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er ævinlega til bóta að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fái að koma hér upp og inna hæstvirta ráðherra eftir svörum við spurningum sínum. Mér finnst meiri líkur en minni á því að hv. þingmaður hefði t.d. spurt hæstv. fjármálaráðherra um það hvort honum þætti nóg komið af jöfnuði í þessu landi. Það var nefnilega það sem hann sagði núna um helgina, að nóg væri komið af jöfnuði í þessu landi. Það er eiginlega kannski með því alvarlegasta sem hefur hrotið af vörum hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir berum orðum að verið sé að stefna samfélaginu í aðra átt, í áttina frá norræna velferðarkerfinu yfir í samfélag ójöfnuðar.

Virðulegur forseti. Ég held að það væri bragur á því, úr því að forseti var búinn að kynna að hv. þingmaður ætlaði að taka hér til máls (Forseti hringir.) og eðlilegt, rétt og sanngjarnt að leyfa hv. þingmanni að bera spurninguna upp.