144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

fjöldi óundirbúinna fyrirspurna.

[15:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar ekki að eyða miklum tíma í þessa umræðu en virðulegi forseti hlýtur að vera meðvitaður um að þingmenn hafa skoðun á því hvernig hlutunum er háttað hérna þannig að þegar hann tekur ákvörðun sem er mjög augljóslega í andstöðu við það sem mér sýndist vera vilji meiri hlutans í salnum þá hlýtur hann að búast við umræðu. Þess vegna vil ég benda á það, þótt ég beri virðingu fyrir ákvörðunum virðulegs forseta, að ef markmiðið var tímasparnaður þá hlýtur þetta að hafa verið röng ákvörðun út frá þeirri forsendu einni að við hljótum að hafa skoðanir á því hvernig við ætlum að hafa hlutina, t.d. þegar þau mistök verða að einhver er boðaður í pontu sem síðan fær ekki að taka til máls. Það hlaut að vera augljóst að þingmenn hefðu skoðanir á þessu og það hlýtur að vera eðlilegt að við höfum skoðanir á þessu. Þess vegna hlýtur það að hafa verið auðséð fyrir fram að við mundum taka til máls og lýsa þeirri skoðun, þeirri lögmætu og að mínu áliti réttu skoðun, í pontu í lið um fundarstjórn forseta.