144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

fjöldi óundirbúinna fyrirspurna.

[15:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma og ræða þetta mál líka því að mér er það eiginlega alveg óskiljanlegt að þessu hafi ekki verið hleypt áfram, þ.e. að fyrirspyrjandi hafi ekki fengið að klára fyrirspurn sína þrátt fyrir að ljóst mætti vera að forseta hefðu orðið á mistök við kynningu á þingmanninum og að í kjölfarið kæmu athugasemdir frá okkur þingmönnum.

Það er nefnilega svo að það er hálfur mánuður þangað til hægt er að ræða hér aftur við forsætisráðherra og fjármálaráðherra, óhætt að vekja athygli á því. Í næstu viku er nefndavika og því ekki þingfundir og þá er ekki hægt að spyrja ráðherra um þau mál sem eru helst á döfinni akkúrat núna, sem er mjög bagalegt. Það að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra séu hér á sama degi er líka óheppilegt. Ég hélt að það hefði verið búið að ræða það í forsætisnefnd að reynt yrði að koma því þannig við að forkólfar ríkisstjórnarinnar væru hér a.m.k. sinn daginn hvor til svara. (Forseti hringir.) En það er vert að vekja athygli á því að það er hálfur mánuður þangað til hægt er að bera upp þá fyrirspurn sem hér átti að bera fram.