144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til félags- og húsnæðismálaráðherra um þjónustusamning við Samtökin ´78. Okkur er væntanlega öllum ljóst að Samtökin ´78 gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í fræðslustarfi, ekki bara fyrir hinsegin Íslendinga heldur samfélagið allt. Þá á ég við í átt að réttlátara þjóðfélagi fyrir alla félagsmenn samtakanna, ekki bara þá sem hefðbundið er að ræða um sem hinsegin fólk, þ.e. homma og lesbíur, heldur líka þær og þá sem telja sig jafnvel lokaða inni í röngum líkama, finna sig ekki í neinu sérstöku kyni og skilgreina sig sem þriðja kynið.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll og auðvitað félagsmálaráðherrann ekki síst að átta sig á því hversu gríðarlega vítt þetta hinsegin hugtak er. Samtökin ´78, sem hafa verið öflug grasrótarsamtök um árabil eins og nafnið gefur til kynna, hafa tekið mjög alvarlega það hlutverk að sinna fræðslu og uppeldisstarfi gagnvart okkur öllum í samfélaginu. Við ættum auðvitað að beita okkur fyrir því að Samtökin ´78 fengju inni í framhaldsskólunum með fræðslu og víðar þar sem ungt fólk kemur saman. Ég tel og það er mín afstaða að uppleggið ætti að vera þannig að ríkið og samtökin töluðu meira saman um þetta fræðslu- og upplýsingahlutverk, um þann þátt í því að gera íslenskt samfélag að góðu samfélagi. Samtökin sinna nú þegar gríðarmiklu og mjög öflugu starfi og það er mín afstaða að það sé mikilvægt að það samstarf sé viðurkennt og réttast sé að gera það með einhvers konar þjónustusamningi við samtökin sem tryggi þessum verkefnum og þessu mikilvæga framlagi samtakanna fjárhagslegan grundvöll til lengri framtíðar.

Við vitum nú þegar að gríðarlega margir einstaklingar koma að þessu fræðslustarfi. Margir þeirra koma að því sem sjálfboðaliðar. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki tímabært og mikilvægt með tilliti til þessa mikla hlutverks samtakanna að ríkið geri þjónustusamning við samtökin sem tryggi (Forseti hringir.) fjárhagslegan grundvöll þessara mikilvægu verkefna.