144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[15:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Takk fyrir umræðuna. Ég verð að viðurkenna að það kom mér gríðarlega á óvart þegar hæstv. ráðherra sagði að hún teldi ekki rétt að gera þjónustusamninga við félagasamtök. Þetta er grundvallarstefnubreyting miðað við hugmyndina þegar þetta var fært inn í ráðuneytin og átti að setja í skipulagt ferli þar.

Það hefur verið talað um tvenns konar aðferðir til að styrkja almannaheillasamtök og styrkja stöðu þeirra sem gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi til að gæta mannréttinda, til að gæta ákveðinna hagsmuna, eins og sjúklingasamtaka og annarra, að það séu tvenns konar samningar í gangi, annars vegar þjónustusamningur sem tryggir að viðkomandi félagasamtök hafi starfsgrundvöll, geti gegnt ákveðnu hlutverki og þjónusti samfélagið með þeim hætti. Hins vegar til viðbótar styrkir til ákveðinna verkefna. Auðvitað er þetta allt háð því að menn skili skýrslum, gangi frá, sanni að þessi starfsemi hafi átt sér stað o.s.frv.

Dæmi er Félag eldri borgara, landssamtökin sem eiga að fá styrk til að reka sína þjónustu, (Forseti hringir.) samtök um sérstök verkefni, þannig að ég skora á hæstv. ráðherra að fara vel yfir þetta skipulag og tryggja að það verði gerðir þjónustusamningar.