144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[16:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hvað sem hver segir er Ísland gott samfélag vegna þess að þar er unnið markvisst að því að brjóta niður hvers konar fordóma. Þar hefur stjórnvaldið tekið höndum saman við margvísleg félagasamtök sem hafa barist fyrir hagsmunum tiltekinna hópa. Það er á fáa hallað þótt sagt sé að Samtökin ´78 hafi eiginlega unnið kraftaverk frá árinu 1978 þegar þau voru sett á laggir. Þeim hefur tekist að ná skilningi fyrir sjónarmiðum sínum meðal almennings en líka hjá stjórnvöldum.

Á þingi hafa menn greitt atkvæði með lagabótum í þágu hinsegin fólks nánast samhljóða síðan um miðjan tíunda áratuginn. Ég held að mikilvægt sé að það sé stutt við samtök af þessu tagi, ég tel mikilvægt að gerður verði við þau þjónustusamningur og ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það verði reiðarslag fyrir mörg samtök ef menn heyrðu rétt hérna áðan þegar hæstv. ráðherra sagði að hún væri í grundvallaratriðum á móti þjónustusamningum. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það dálítið betur vegna þess að það er í andstöðu við (Forseti hringir.) yfirlýsta stefnu þessarar ríkisstjórnar.