144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[16:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og hefur komið nýlega fram voru fjárveitingar til Samtakanna ´78 um 8,5 milljónir á seinasta ári. Á sama tíma taka samtökin inn í sína hópa, undir hinsegin regnhlífina eins og hún er kölluð, fleiri hópa svo sem ókynhneigða og intersexfólk þannig að regnhlífin stækkar og málaflokkurinn stækkar. Það má búast við að verkefnin aukist vegna þess að hlutverk Samtakanna ´78 og aðildarsamtaka þeirra felst alltaf meira og meira í því að aðstoða börn sem eiga í einhvers konar félagslegum eða annars konar vandræðum sem varða þessi mál. Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum tækifærið þegar okkar samfélag þróast í áttina til umburðarlyndis og skilnings gagnvart fólki sem er frábrugðið einhverju öðru fólki. Það mikilvægasta sem mér finnst við þetta allt saman er að það er orðin virðing fyrir því að við erum öll ólík. Það er í lagi og það er fjársjóðurinn. Það versta sem kemur fyrir (Forseti hringir.) samfélagið er þegar það mótast mestmegnis af fordómum og umburðarleysi. (Forseti hringir.) Ég hef því miður ekki tíma fyrir meira.