144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

sérstakt framlag til húsaleigubóta.

719. mál
[16:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum öll áhuga á húsnæðismálunum. Með fullri virðingu fyrir hv. þm. Sigríði Ingibjörgu, þótt hún spyrji þessarar spurningar, held ég að við öll hér höfum mikinn áhuga á þessu máli. Ég hlustaði á gagnmerkt viðtal við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra á laugardaginn var og þar heyrði ég ekki betur en að hún reiknaði ekki með að þetta húsaleigufrumvarp, þ.e. frumvarpið sem kemur með einhverja peninga inn í kerfið — ég veit að það frumvarp er komið sem breytir lögum um leigjendur og leigusala og þar fram eftir götunum, leigumarkaðinn — ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra segði að það yrði á næsta þingi. Ef ég heyrði rétt finnst mér þetta algjörlega ótrúlegt, sérstaklega í ljósi þeirra stóru orða sem hæstv. ráðherra hefur haft (Forseti hringir.) um húsnæðismálin, ekki síst á síðasta kjörtímabili. Nú hefur hún haft tvö ár til (Forseti hringir.) að hugsa þessi mál.