144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

sérstakt framlag til húsaleigubóta.

719. mál
[16:22]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Ég þakka enn á ný fyrir þessa umræðu og ítreka þau orð mín að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur verið mjög ötul við að tala hér um húsnæðismálin og svo sannarlega haldið þessum (Gripið fram í.) ráðherra við efnið. Það er ánægjulegt að finna að sá áhugi fer hér víðar um.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um afstöðu mína varðandi tímann hef ég ítrekað sagt hér og ég skal endurtaka það að ég er tilbúin að starfa í allt sumar og ég veit í ljósi orða sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lét til dæmis falla á síðasta kjörtímabili (ÖS: Og þessu.) og þessu að hann er ætíð tilbúinn að vera hér og starfa að góðum málum. Ef það tekur hins vegar svo langan tíma fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið að klára kostnaðarmatið þannig að þó að við ljúkum þessu þingi verður áfram forgangsmál mitt á nýju þingi að koma fram með húsnæðismálin. Það held ég að ég hafi margendurtekið.

Síðan ítreka ég það sem ég sagði að ég er þessa dagana að meta hvernig við eigum að nýta þetta framlag til þess bæði að fara í þær kerfisbreytingar sem ég tel rétt að gera á húsaleigubótakerfinu og líka tryggja að þetta skili sér sem best til þeirra sem á því þurfa að halda.