144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 34 er verið að tala um skattamálin og segir neðst á blaðsíðunni, með leyfi forseta:

„Að auki verður haldið áfram undirbúningi næstu skrefa í því ferli sem hófst á árinu 2014 til að einfalda og lækka tekjuskatt einstaklinga, með því að draga úr bilinu milli lægstu skattþrepanna með það að lokamarkmiði að fella þau saman í eitt þrep. Sú aðgerð er talin mikilvægur liður í því að einfalda skattkerfið, bæta skilvirkni þess og auka ráðstöfunartekjur fólks.“

Það fer ekki mikið fyrir þessu en ég mundi segja að þetta væri nokkuð stór ákvörðun. Þrepaskipt tekjuskattskerfi er í rauninni jöfnunartæki og þegar virðisaukaskattur var til dæmis hækkaður á mat voru rökin þau að virðisaukaskattur væri ekki besta leiðin til jöfnunar. Þá mundi maður vænta einhverra annarra leiða ef menn vildu nota skattkerfið til að auka jöfnuð. Ef menn ætla bæði að hækka virðisaukaskattinn á nauðsynjavörur, sem auðvitað bitnar meira og verr á þeim sem minna hafa á milli handanna, og líka fella þrepin saman í eitt þrep verð ég að segja að ég sé ekki alveg hvernig eða hvort við ætlum yfir höfuð að nota skattkerfið til að reyna með einhverjum hætti að jafna kjör, hlífa þeim sem minna mega sín og láta þá sem meira hafa á milli handanna borga hærri skatt.

Ég hefði áhuga á að heyra hvað fyrrverandi fjármálaráðherra hefur um þetta að segja.