144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ein stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir, hvernig hægt er að skipuleggja ferðaþjónustuna þannig að hún skili meiru en hún gerir í dag. Ég var þeirrar skoðunar haustið 2012 þegar átti að fara með virðisaukaskattinn upp í efra þrepið, þannig að ef ég var á því á þeim tíma hef ég sannarlega ekki skipt um skoðun í þeim efnum. Það er rétt hjá hv. þingmanni, við þurfum að gera það með fyrirvara og sú sem væri væntanlega fyrst til að segja okkur það er hæstv. ráðherra sem er nú að koksa á náttúrupassanum af því að hún var svo mikið á móti virðisaukaskatti á gistiþjónustu á sínum tíma. Það er nú öll stjórnsýslan og ég veit ekki hvort þetta dæmi í kringum ferðaþjónustuna er skemmtisaga eða sorgarsaga, það er annað hvort.

Það er fyrst og fremst fyrirtækjunum í landinu sem við þurfum að búa þann ramma að ferðaþjónustan skili meiri arði en hún gerir í dag. Ég kann ekki svarið hér og nú, en þetta er eitt af þeim stóru verkefnum sem við stöndum frammi fyrir. Við gleðjumst auðvitað yfir því að þessi þjónusta blómstrar eins og hún gerir en í henni eru láglaunastörf og það er leiðinlegt að árið 2015 skuli stækkunin vera láglaunastörf. Ég er á því að það eigi að taka allar (Forseti hringir.) skattundanþágur frá greininni, hún þarf ekki á þeim að halda lengur.