144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla ekki að fara út í vaxtakjörin, ég ætla að ræða við hann um það sem hann kom hugsanlega ekki að í sinni ræðu og þar er svo sem af nógu að taka, m.a. að á bls. 24 er verið að tala um forinngreiðslur í B-deild lífeyrissjóðsins sem nemi um 5 milljörðum á ári frá og með árinu 2017. Þar er talað um að ráðstöfun á lánsfjárafgangi í sjóðstreymi eigi að koma til. Ég skil það sem svo að það feli þá í sér að rekstrarreikningurinn á greiðslugrunni eigi að skila 5 milljörðum til aukningar á handbæru fé þannig að þá sé þetta frátekið í þetta, eins og hér kemur fram. Ég hef ekki séð að það sé gert ráð fyrir því að ekki sé tekið lán heldur að þetta sé handbært fé, að það verði nægt. Tekur þingmaðurinn undir það með mér að það sé ekki sýnilegt í þessu plaggi?

Það er fleira sem mig langar að ræða, m.a. öldrunarmálin. Hér er talað um stefnumarkandi plagg ríkisstjórnarinnar til næstu ára en við sjáum ekki að það sé verið að leggja fjármuni í Landspítalann. Það er ekki fyrirsjáanlegt hvenær á að byggja meðferðarkjarnann. Það er ekki talað um hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir, aðeins í greinargerðinni sagt að halda eigi áfram með leiguleiðina. Það kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra um daginn að það væri mikil þörf eins og við þekkjum.

Getur þingmaðurinn verið mér sammála um að þetta kalli á aukna fjármuni í Framkvæmdasjóð aldraðra ef halda eigi áfram með leiguleiðina í hjúkrunarheimilabyggingaleiðinni? Þess sjást ekki (Forseti hringir.) nein skil í þessari áætlun.