144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið fljótur að svara fyrri spurningu hv. þingmanns. Ég þekki ekki grunninn með þeim hætti að ég geti haft á því miklar skoðanir en treysti því að hv. þingmaður hafi meira vit á þessu en ég, enda situr hún í fjárlaganefnd og er þaulkunnug öllum þáttum þessara mála.

Hvað varðar öldrunarmálin eru þau hins vegar mikið áhugamál mitt sem og uppbygging hjúkrunarheimila. Það er alveg rétt að í þessari áætlun er ekki að sjá neina útfærslu á því hvernig bætt verði úr brýnni þörf. Nú þegar eru hundruð manna á biðlistum í brýnni þörf og einkanlega á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík sjálfri. Þrátt fyrir að heimaþjónusta verði bætt liggur samt fyrir vaxandi þjónustuþörf á næstu árum. Ég hef margspurt bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra og þeir svara í austur og vestur um þessi mál.

Hæstv. heilbrigðisráðherra talar um að það þurfi að finna leiðir í þessu og það þurfi aukið fjármagn til uppbyggingarinnar en hefur ekki komið fram með skýrar tillögur þar að lútandi. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað leiguleiðina niður en á sama tíma lagði hann fram fjárlagafrumvarp síðasta haust sem varð að lögum sem annað árið í röð tók alla þá peninga sem voru óráðstafaðir í Framkvæmdasjóði aldraðra og notaði í rekstur hjúkrunarrýma. Það finnst mér orka mjög tvímælis og ekki bara orka tvímælis heldur vera fullkomlega óásættanlegt þegar menn eru búnir að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Við gerðum þetta sem neyðarúrræði held ég í tvö af kreppuárunum, ekki öll kreppuárin. Hins vegar tókum við peninga í leiguleiðina úr Framkvæmdasjóði aldraðra enda er það langtímauppbygging sem greiðist þá af framkvæmdasjóðnum á löngu árabili. (Forseti hringir.) Það skortir algjörlega sýn ríkisstjórnarinnar á það hvort á að taka lán eða safna fé fyrir þessu. Ég get kannski komið betur að því í seinna andsvari.