144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst áfram varðandi hjúkrunarheimilin, mér finnst ríkisstjórnin einfaldlega fara undan í flæmingi í þessu máli. Hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa séð ofsjónum yfir þeirri stefnu sem við mörkuðum í okkar ríkisstjórnartíð um að hjúkrunarheimili yrðu heimili fólks og þar af leiðandi væri byggt frekar rúmt um fólk. Þeir hafa sagt hana of dýra, það sé með öðrum orðum of rausnarlega búið að öldruðu fólk. Ég á mjög erfitt með að kaupa þessar skýringar og skil ekki alveg þá holu stemningu hjá ríkisstjórninni að hola fólki niður í litlar kytrur og að það sé sjálfstætt markmið. Byggingarkostnaður hjúkrunarheimila sem mikið er býsnast yfir að sé allt of hár og sé svo rosalega hár að enginn ráði við hann er samt ekki meiri en sem nemur rekstri hvers rýmis í þrjú ár. Það að byggja rýmið kostar með öðrum orðum reksturinn í þrjú ár, það er ekki meira. Mér finnst menn fara undan í flæmingi þegar kemur að þessu og eiginlega skýla sér á bak við þennan byggingarkostnað sem röksemd fyrir að gera ekkert í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Það finnst mér óásættanlegt því að þörfin er fyrir hendi og hún er brýn.

Ég get síðan verið sammála hv. þingmanni um áhyggjur hennar af þeirri stefnu sem birtist í skattamálum. Sú meinloka Sjálfstæðisflokksins að leggja af þrepaskipt tekjuskattskerfi er ekki í nokkru samræmi við nýjustu hugmyndir um mikilvægi jafnaðar í samfélagsgerð sem er að ryðja sér rúm um allan heim. Meira að segja OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa gert skýrslur um mikilvægi þess að menn leggi meira af mörkum eftir því sem þeir eru efnaðri og finna leiðir til þess. Það nægir að nefna bók Thomasar Pikettys sem hefur orðið (Forseti hringir.) metsölubók á síðustu missirum þar sem alls staðar er verið að reyna að finna nýjar leiðir til þess að beita skattkerfinu prógressíft til að draga úr ójöfnuði og láta þá sem betur standa leggja meira af mörkum. Þessi ríkisstjórn kemur með áratugagamlar klisjur og úreltar kenningar og hrindir þeim í framkvæmd.