144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talar um að hún sakni þess að tekið sé á svona stefnumálum og þá vænti ég þess að hv. þingmaður óski eftir því að stefnan sé nákvæmari en hún er sett fram að þessu sinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í atvinnustefnu yfir höfuð. Í áætluninni er farið ágætlega yfir það varðandi ferðamannaþjónustuna að gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti í þeirri grein. Við vitum að milljón ferðamenn komu árið 2014 og þeim hefur fjölgað um 20% árlega síðustu ár; ferðaþjónustan er nú stærsta útflutningsgreinin og hefur verið það frá árinu 2013. Það er samt engin framleiðniaukning í hagkerfinu og það er ákveðið vandamál. Um þetta er fjallað á bls. 12 og 13 í ríkisfjármálaáætluninni og ýmislegt bendir til þess að greinin búi við of miklar ívilnanir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála því og hvort hún hafi einhverjar hugmyndir um það hvernig stefnan ætti að vera varðandi vöxt þessarar atvinnugreinar. Þó að það sé gott að ferðaþjónustan vaxi þá þykir það ekki gott að ferðaþjónustan, eins sveiflukennd og hún er, sé ein meginstoðin í atvinnulífinu, enda kemur í ljós að atvinnuleysi meðal grunnskólamenntaðra og iðnaðarmanna hefur minnkað. Það kemur einmitt fram á bls. 10 í áætluninni, en háskólamenntuðum sem eru atvinnulausir (Forseti hringir.) er hins vegar að fjölga. Þetta er sú þróun sem fylgir (Forseti hringir.) svona örum vexti þessarar atvinnugreinar. Ég vil spyrja hv. þingmann út í þetta.