144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það væri mjög hressandi ef stjórnarflokkarnir væru meira sammála í mörgum málum og til bóta. Varðandi það að selja hlut í Landsbankanum — við eigum auðvitað einhverja smáhluti í hinum bönkunum líka — þá er ég ekkert endilega andvíg því. Eins og ég kom inn á í ræðu minni þá er bæði vaxtakostnaðurinn sem við berum og áhættan af því að við erum svona skuldsett það mikil að ef við getum selt hlut í Landsbankanum, og fengið ásættanlegt verð fyrir það, þá finnst mér við þurfa að skoða það alvarlega. Ég mundi ekki setja mig upp á móti því. Það er ekki eins og það hafi ekki verið tekið lán til þess að bjarga bönkunum, þannig að við þurfum að greiða þau niður.

Varðandi ferðaþjónustuna sem ég ætlaði að koma inn á áðan: Það er auðvitað mjög mikilvægt að uppræta svarta starfsemi í ferðaþjónustunni. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að fyrirtæki sem eru heiðarleg sitji undir því að greinin sé undirlögð af svartri atvinnustarfsemi, en við vitum að það eru dæmi um það, það þarf bara að uppræta það. Þar eru tekjur.