144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það dylst engum sem hefur fylgst með umræðunni hér að við erum að ræða ríkisfjármálaáætlun. Ég ætla að endurtaka ánægju mína með það að hún sé að koma fram í fyrsta sinn, það eru tímamót, í samræmi við þingsköp. Ég þakka ræðumanni og hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur hennar fínu ræðu.

Það kom fram í ræðu hér fyrr að kallað væri eftir okkur framsóknarmönnum í þessa umræðu. (ÖS: Við söknum ykkar alltaf.) Það er kært að heyra það og hingað er ég kominn. Ég sakna á móti í umræðunni hins jákvæða tóns sem hægt er að lesa út úr ríkisfjármálaáætluninni, eins og það að snúið er frá aukinni skuldasöfnun, sannarlega, það er hagvöxtur næstu fjögur árin, aukinn kaupmáttur, atvinnuleysi er á niðurleið, atvinnuvegafjárfesting er á uppleið, afgangur er á rekstri ríkissjóðs í þessi fjögur ár og tvö ár á undan, þ.e. sex ár samfleytt, sem gefur okkur möguleika á að fara að vinna niður skuldir ríkissjóðs. Mér finnst stefnan og áætlunin sem birtist hér raunsæ. Neðst á bls. 22 segir að í samanburði við önnur ríki gefi þetta til kynna að vaxtakjörin sem íslenska ríkinu bjóðast séu mun lakari en önnur ríki hafi aðgang að á fjármagnsmörkuðum.

Vextir hafa verið til umræðu. Hér er ekki verið að fela neitt. Þetta er sannarlega staðan. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hún að við hefðum getað hafið þessa vegferð fyrr, að snúa frá (Forseti hringir.) skuldasöfnun og greiða niður vaxtagjöld?