144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, eins og ég nefndi áðan var fyrsta mál ríkisstjórnarinnar að hætta við að hækka virðisaukaskatt á gistingu, þar urðum við af hundruðum milljóna á árinu 2013, jafnvel 1,5 milljörðum á árinu 2014, sem hefði örugglega orðið enn meira vegna þess að það komu fleiri ferðamenn en við sáum fyrir. Þarna voru peningar sem ég held að við hefðum mjög auðveldlega getað fengið í ríkiskassann án þess að nokkur hefði fundið fyrir því og ferðamennirnir hefðu ekki kvartað yfir því.

Það er rétt að margir óvissuþættir eru í stöðunni og það hefur svo sem verið viðurkennt hér af fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytinu. Það er afnám hafta og kjaraviðræður. Manni finnst næstum því Íbúðalánasjóður vera orðinn lítill áhættuþáttur miðað við það tvennt.

Það er rétt að það er gott að fá þessa áætlun hérna í fyrsta sinn, hún er einhvers konar upptaktur að því sem koma skal. Þegar við samþykkjum lög um opinber fjármál þá á að vera með ítarlega áætlun og hún þarf að vera ítarlegri en þetta og hún þarf líka að vera með ramma, við þurfum að vita hvað hvert ráðuneyti fyrir sig hefur úr að moða. Þannig að ég lít svolítið á þetta sem æfingu því mér finnst áætlunin ekki nógu ítarleg eða nógu afgerandi. Ég nefni bara fjárfestingarnar. Hvaða stefna er þar? Fjárfestingarstefna ríkisstjórnarinnar næstu fjögur árin er í raun hönnun á meðferðarkjarna við Landspítalann og bygging sjúkrahótels og að klára Norðfjarðargöngin og að klára Hólmsheiði. Það er fjárfestingarstefnan eins og ég skil þetta.