144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Ég get í rauninni tekið undir það sem hv. þingmaður sagði, þetta gengur út á að allt fari á besta veg og að kjarasamningar verði algjörlega innan marka. Einhvern tímann spurði ég einmitt að því hvort gert væri ráð fyrir á þessu ári eins og t.d. þeirri hækkun sem varð hjá læknum, en þá er í rauninni talað um þennan pott sem í eru um 5 milljarðar sem eigi að dekka svoleiðis kostnað. Hvort það dugar síðan á næsta ári skal ég ekki segja, en auðvitað mun fjárlagafrumvarpið í haust bera þess merki ef launahækkanir fara fram úr því sem við væntum.

Kjaraviðræður eru klárlega risastór áhættuþáttur. Annar er ferðaþjónustan. Við erum svolítið farin að tala eins og ferðamennirnir séu komnir til að vera. Það þarf líka að passa að við höldum í þessa ferðamenn og að við vöndum okkur þegar kemur að því. Eldgosið sem við héldum að mundi fæla frá ferðamenn (Forseti hringir.) varð til þess að margfalda fjöldann. Það getur ýmislegt gerst sem verður til þess að við verðum (Forseti hringir.) kannski ekki jafn eftirsóknarvert ferðamannaland og við erum núna.