144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og eins og hann sagði þá er ekki margt sem maður getur sagt á svona stuttum tíma. Við erum sátt við það að fá fram svona áætlun sem á að vera stefnumarkandi plagg en ég hef aðeins gagnrýnt það að mér finnst stefnumörkunin að mörgu leyti óljós. Hér er verið að tala um stóra heildarrammann. Óvissuþættirnir eru gríðarlega margir og ég hef áhyggjur af því að plaggið haldi mjög illa, af því að ég tel að það séu óraunhæfar áætlanir þarna inni, meðal annars varðandi launaforsendur, og hér er ekki gert ráð fyrir hvað gerist við afnám hafta o.s.frv. Það eru svona stórir þættir sem vissulega getur verið erfitt að spá í en ég tel að það sé algjörlega óraunhæft, miðað við þær kröfur sem uppi eru í samfélaginu um launin, að gera ekki ráð fyrir einhverju umfram það lágmark sem hér er tekið fram.

Ég hefði líka viljað fá rammafjárlögin. Mér þykir óþægilegt að eiga að fjalla um það að hausti, þ.e. varðandi málaflokkana, ég held að það hefði verið gott. En mig langaði aðeins til þess að spyrja hv. þingmann, ég hef áður spurt um það í dag, um S-merktu lyfin, af því að það er málaflokkur sem hv. þingmaður þekkir vel. Við höfum verið að halda í við okkur en þrátt fyrir það hafa útgjöld til þessa málaflokks verið að hækka. Nú segir ráðherra að við séum að ná jafnvægi þar en er þingmaðurinn sammála mér um að það sé komin uppsöfnuð þörf fyrir það að geta fjárfest í(Forseti hringir.) nýjum S-merktum dýrum lyfjum sem við höfum vegna aðstæðna þurft að ýta frá okkur?