144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, það er augljóst að í fyrsta lagi vantar stefnumótunina, hún er mjög óskýr í þessu plaggi og það er fullt af óvissuþáttum og sjálfsagt rétt sem kemur fram að það eru óraunhæfar forsendur hvað varðar marga liði.

Það má nefna eitt í viðbót. Það er reiknað með tekjum til þess að borga leiðréttinguna svokölluðu, en ef samið verður um afnám hafta og gengið frá þrotabúum bankanna, hvernig verður með skattinn á þrotabúin o.s.frv.?

Eins tek ég undir með hv. þingmanni þá vantar rammafjárlög fyrir einstaka málaflokka, það hefði verið gaman að sjá málaflokkana og hvert stefndi með fjárveitingunum. Í heildina vantar, ég ætlaði nú að nefna það í ræðu minni, t.d. atvinnustefnu og menntastefnu. Hvert viljum við stefna, hver erum við að fara með þjóð okkar og hvar viljum við leggja áherslurnar í samneyslunni?

Einn af þeim þáttum sem þar eru eru heilbrigðismálin. Við höfum gefið gríðarlega stór fyrirheit — þ.e. nýja ríkisstjórnin hefur gert það og ég hef fagnað því og stjórnarandstaðan að þau eigi að vera í forgangi. Það er mjög erfitt að sjá það í þessu plaggi. Það er ekki verið að bæta miklu við inn í þann málaflokk á næstu árum, það er greinilegt að menn ætla bara að láta sér duga það sem komið er.

Hv. þingmaður nefnir S-merktu lyfin og það er rétt að sá liður hefur aukist stöðugt, það eru sífellt nýjar og nýjar kröfur og væntingar frá bæði sjúklingum en líka frá lyfjafyrirtækjum um að við tökum ný lyf hraðar inn. Ég get ekki tekið undir að búið sé að ná neinu jafnvægi þar. Það eru stöðugt að koma ný lyf inn á markaðinn og þau eru dýrari, það eru svokölluð líftæknilyf sem falla á gríðarlega há útgjöld. Menn hafa haldið í horfinu með því að seinka inntöku á nýjum lyfjum og mér sýnist, af því sem ég hef séð, að ekki hafi verið bætt mjög miklu við þannig að það muni verða vaxandi pressa á að taka inn ný lyf. En það þarf að vera á bremsunni í þessu, ég ætla ekkert að leyna því, vegna þess að þetta er málaflokkur sem annars mundi vaxa (Forseti hringir.) um 15% á ári og það ráðum við ekki við.