144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því, ég held við séum það öll, að einhvern veginn þurfum við að ná utan um S-merktu leiðina. En spurningin er einmitt um, eins og mér finnst kannski skína hér svolítið í gegn, að í því máli eins og öðru vantar raunveruleikatenginguna inni í þessu.

Mig langaði aðeins að koma inn á afkomuþróunina af því að þingmaðurinn nefndi að afkomubati er mjög hægur miðað við fyrirliggjandi tekjuáætlun, 8–9 milljarðar eitthvað svoleiðis á ári, nema 2017 þar sem 20 milljarða afkomubati, þ.e. áhrif á flýtingu á niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána. Á sama tíma er talað hér um 5 milljarða á greiðslugrunni til að borga inn á lífeyrisskuldbindingar okkar. Ég hef ekki náð að átta mig á því hvort taka eigi lán fyrir lífeyrisskuldbindingunum eða hvort menn telja að afgangur verði handbær til að borga inn á lífeyrissjóðinn, B-deildina, ég geri mér grein fyrir því að við þurfum að gera það. En mér finnst þetta vera óvissa. Á bls. 24 er farið ofan í þetta mál og ég spyr þingmanninn hvort hann sé mér sammála um þetta. Eins þetta með aðhaldsmarkmiðin að við gerum ráð fyrir í þessari áætlun, sem er til næstu ára, til 2019, 1% aðhaldsmarkmiði og nú stöndum við frammi fyrir verkföllum og miklu ástandi sem dunið hefur bæði á Landspítala og sjúkrahúsinu á Akureyri og víðar þar sem við þekkjum að aðgerðum hefur verið frestað og uppsafnaður vandi er mikill og Landspítalinn er nú þegar kominn 3 milljarða fram úr áætlun. Það er eitt af því sem mér þykir algerlega óraunhæft (Forseti hringir.) að halda stefnum eins og þessu að halda áfram þó það sé bara 1%. Þetta eru stærstu málaflokkarnir, menntamálin og heilbrigðismálin. Er þingmaðurinn mér ekki sammála um þetta?