144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hefur verið sagt, það skiptir máli að við gerum ríkisfjármálaáætlun og er vel að hún sé komin fram. Markmiðið með henni hlýtur að vera að draga upp raunhæfa mynd af því sem koma skal á næstu árum, því að að öðrum kosti er tíma okkar ekkert sérlega vel varið til þessarar vinnu.

Ég verð að segja að mér finnst þetta plagg ekki gefa okkur neitt sérstaklega raunhæfa mynd af því sem koma skal. Ástæðan fyrir því er sú að kveðið er á um einstaka þætti sem stjórnarflokkarnir eru ekki einu sinni sammála um að eigi að gerast. Mig langar að nefna að það birtist ágætlega í þessu máli hversu ósamstiga ríkisstjórnin er. Ef maður ber þessa ríkisfjármálaáætlun saman við til dæmis samþykktir á landsfundi Framsóknarflokksins þá skil ég ekki til hvers menn leggja hana fram, til hvers við eyðum tíma okkar í að fara í gegnum þetta skjal þegar það er algerlega kristaltært, það kemur fram á bls. 22 og á fleiri stöðum, að ríkisfjármálaáætlunin gerir ráð fyrir sölu ríkisins á 30% hlut í Landsbankanum á árunum 2015 og 2016. Á landsfundi Framsóknarflokksins var það skýrt að menn vildu ekki sjá neina sölu á hlut í Landsbankanum þar. Það hefur líka komið fram í máli einstakra þingmanna og ég nefni til dæmis hv. þm. Frosta Sigurjónsson, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins fyrir Framsóknarflokkinn, það hefur komið fram mikil andstaða við þetta. Ef við erum með ríkisfjármálaáætlun sem byggir meðal annars á þeim þætti, sem mér er mjög til efs að geti orðið að veruleika á meðan þessi ríkisstjórn situr vegna þess hversu ósamstiga menn eru í málinu, spyr ég mig hvers vegna menn leggja hana fram. Af hverju taka þeir hana ekki aftur og vinna hana og koma með skýra mynd af því sem koma skal á næstu árum í staðinn fyrir að leggja fram eitthvað svona?

Halda menn í alvöru talað að það geti gerst að 30% hlutur í Landsbankanum verði seldur, eða brot af því, á þessu ári? Halda menn það í alvörunni? Nei, það mun ekki gerast. Það eru svona atriði á fleiri stöðum sem ég skil ekki af hverju menn leggja fram. Það er ekkert að því, það er engin uppgjöf í því þótt menn taki áætlunina aftur og lagi hana til þannig að hún gefi raunverulega mynd af því sem koma skal en ekki af óskum einstakra aðila. Hún verður að sýna raunverulega mynd af því sem ríkisstjórnin ætlar að gera.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri hlutir sem ríkisstjórnin er ósamstiga í og verður nefna niðurlagningu Bankasýslunnar. Við erum að fara að ræða það mál á eftir og einnig sölu eignarhluta í bönkunum í frumvarpi sem er á dagskrá og hæstv. fjármálaráðherra mun tala fyrir síðar á þessum fundi. Eins og ég hef nefnt get ég ekki séð að stjórnarflokkarnir séu sammála um þessi mál þannig að ég velti fyrir mér til hvers við stöndum hér og erum að fara að ræða málið þegar við getum notað tímann í önnur mál sem raunverulega skipta máli, ekki síst í því umhverfi sem við erum í í dag þar sem allt logar á vinnumarkaði. Við gætum verið að gefa frá þinginu raunhæf skilaboð um það sem koma skal og leggja fram mál sem geta haft áhrif í kjaradeilunum. Þessi mál gera það ekki. Við heyrðum síðast í dag hversu ósamstiga menn eru, t.d. um mál sem lúta að stórum málum eins og verðtryggingu og fleiru sem er orðið algerlega ljóst að ríkisstjórnin mun ekki gera neitt í að afnema.

Hvers vegna er ég að tala um þetta? Vegna þess að það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að við sendum skýr skilaboð í öllum störfum okkar á Alþingi. Ég vil að við nýtum tíma okkar betur og mér finnst tíma okkar ekki vel varið ef við erum að ræða mál sem erfitt er að sjá að geti raunverulega gefið þá mynd sem okkur ber að gefa. Það skiptir máli vegna þess að núna standa yfir gríðarlega erfiðar kjaradeilur á vinnumarkaði. BHM er í verkfalli, Starfsgreinasambandið fer í verkfall á fimmtudaginn ef ekki um semst, VR, Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Landssamband verslunarmanna voru að slíta viðræðum fyrr í dag, sömuleiðis Flóabandalagið og þarna bætast við hvorki meira né minna en 56 þúsund manns sem fara í verkfall í næsta mánuði ef ekkert breytist og menn ná ekki saman. Það er sú alvarlega staða sem er uppi og það er umhverfið sem við erum í núna, þess vegna skiptir miklu máli að við sendum út skýr skilaboð. En í staðinn erum við að ræða mál eins og ríkisfjármálaáætlun þar sem er ekkert sem sendir slík skilaboð, það er ekki verið að gera annað, og nú ætla ég að nefna nokkur atriði, en að ýta enn frekar undir óöryggi gagnvart ákveðnum málum og það vekur upp fleiri spurningar en svör um það hvert menn stefna.

Ég nefni til dæmis virðisaukaskattskerfið. Það er fjallað um það hér og talað um að það eigi að einfalda á næstu árum og gera öflugra. Það stendur, með leyfi forseta:

„Endurskoðun virðisaukaskattskerfisins verður einnig haldið áfram með það fyrir augum að færa kerfið í einfaldara og nútímalegra horf og styrkja það sem tekjuöflunartæki.“

Við heyrðum í hv. þm. Willum Þór Þórssyni í andsvari áðan og er alveg ljóst að hugur hans stefnir að því að einfalda kerfið með því að fækka þrepum og við vitum öll hvað það þýðir. Hækkunin á matarskatti sem við sáum fyrir jól var aðeins byrjunin. Menn munu halda áfram að hækka matarskattinn. Hvaða skilaboð er verið að senda út til þeirra sem berjast fyrir bættri lífsafkomu, og það með réttu, til fólks sem er með allt of lágar tekjur og fær allt of lítinn skerf af samfélagskökunni og allt of litla hlutdeild í henni? Samfélagskakan er stór. Við höfum það gott en við skiptum kökunni ekki réttlátlega á milli þeirra sem búa hér. Um það snúast deilurnar á vinnumarkaði núna. Þetta eru grundvallarspurningar sem menn krefjast svara við og þeim er svarað svona: Í nafni einföldunar á að hækka skatta á þá sem verja stærsta hlutfalli tekna sinna í nauðsynjavörur. Það eru svör ríkisstjórnarinnar. Það eru svörin sem menn fá út úr þessari þingsályktunartillögu.

Það eru fleiri atriði sem fá mann til að hugsa og þau svara ekki endilega spurningum manns heldur situr maður frekar upp með fleiri spurningar. Það er til dæmis útgjaldaramminn og áætlanir um útgjaldaaukningu. Gert er ráð fyrir því að verðbólgan eigi eftir að vera um 2,5–2,7% á því tímabili sem áætlunin tekur til. Þá vekur það mann til umhugsunar hvers vegna aukningin á heildarútgjöldunum milli áranna 2016 og 2017 nær því ekki. Það hlýtur að benda til þess að menn geri ráð fyrir því að skera niður á þeim tíma og það um þó nokkra fjármuni. Mér finnst ekki hægt að leggja fram þingsályktunartillögu sem kveður á um slíkt öðruvísi en segja okkur hvernig það á að gerast.

Við höfum séð, og það er að mörgu leyti dregið ágætlega saman hér, hvernig ríkisstjórnin forgangsraðar. Henni þykir eðlilegt, eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni, að lækka skatta á þann hátt að losa sig við tekjur upp á 10,7 milljarða, með því að framlengja ekki auðlegðarskattinn og svo á orkuskattur að renna sitt skeið á enda árið 2016. Þar eru 2,2 milljarðar. Menn nefna ekki mikið auðlindagjöldin og veiðigjöldin þar sem menn afsöluðu sér líka tekjum o.s.frv. Á sama tíma kallar stór hópur í þjóðfélaginu eftir því að kjör hans verði bætt þannig að lífsafkoma fólks verði betri. Því kalli svarar ríkisstjórnin með ríkisfjármálaáætlun sem gefur til kynna að skattar verði hækkaðir á þá sem lægstar hafa tekjurnar í gegnum hækkun á virðisaukaskatti og að skorið verði niður á árunum 2016–2017.