144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langaði aðeins að koma hér aftur og gera að umtalsefni nokkur mál sem ég kom ekki inn á í fyrri ræðu minni. Það er fyrst kannski um þessi viðmið og ég held að við séum öll sammála um að við viljum lækka vexti ríkissjóðs. Við ítrekuðum það mjög þegar við ræddum hér um skuldaniðurgreiðslu ríkisstjórnarinnar að við töldum þeim fjármunum betur varið m.a. í niðurgreiðslu vaxtaberandi skulda ríkissjóðs sem mjög mikið er fjallað um í þessari fjármálaáætlun. Ég held að það hljóti að teljast ekki ábyrg afstaða af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar það kemur fram hér að vaxtakostnaður hér á landi sem hlutfall af heildarútgjöldum er um það bil tvöfalt hærri en meðaltal Evrópusambandsríkjanna, 11% á móti 5,6% hér að meðaltali árið 2013 og þá var það 6,7% í Grikklandi þannig að við fáum mun lakari kjör en margar aðrar þjóðir. Í ljósi þess er afskaplega sérstakt að ríkisstjórnin skyldi nýta þá fjármuni sem hún taldi sig hafa til ráðstöfunar í niðurgreiðslu.

Það er mjög mikið um þætti í þessari tillögu sem eru óljósir hvað varðar afkomu ríkissjóðs, m.a. áhrif Íbúðalánasjóðs og stór hluti þar er í rauninni fyrst og fremst vegna títtnefndrar skuldaniðurgreiðslu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst að það sé eitthvað sem þurfi að ræða mjög ítarlega.

Hér er rætt um efnahagshorfur ríkissjóðs og að tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu munu lækka nokkuð á næstu árum og kemur þar tvennt til. Stórir óreglulegir liðir munu dragast saman og síðan eru það breytingar á skattkerfinu. Þar er um að ræða brottfall tímabundinna skatta og aðgerða ríkisstjórnarinnar við að lækka skattbyrði heimila og fyrirtækja. Svo er hér sagt að á móti lækkun skatttekna af þessum sökum vegi jákvætt samspil efnahagsframvindunnar og breytinga skattkerfisins sem verði hagstætt tekjuöflun þegar líður á tímabilið.

Við höfum auðvitað gagnrýnt það mjög, vinstri græn og aðrir í stjórnarandstöðunni, hvernig farið var með hina ýmsu tekjuskattsstofna sem við þurfum svo sannarlega enn þá á að halda. Eins og ég hef rakið í andsvörum í dag er þjóðarsjúkrahúsið okkar mjög illa statt, við erum að skera niður í menntakerfinu o.s.frv. Við erum ekki komin á þann stað að við höfum í raun tækifæri til að afsala okkur þeim tekjum sem ríkisstjórnin rekur hér og er afskaplega ánægð með að því er virðist. Á sama tíma er fyrirliggjandi 3 milljarða kr. halli á Landspítalanum og fyrirsjáanlegt að þar verður mjög erfitt fram undan í ljósi þess sem búið er að eiga sér stað. Sú sýn sem hér birtist er því ekki sú sem ég mundi vilja sjá. Það er eitt að vilja lækka skuldir en annað er aðferðafræðin sem við viljum nota. Hér er ekki horft á lykilforsendu hagvaxtar, þ.e. jöfnuðinn, með því að leggja til hugmyndir um að skattþrep verði bara eitt í tekjuskatti og í virðisaukaskatti. Það er ávísun á ójöfnuð, enn meiri ójöfnuð en þegar er að myndast. Og það dugar ekki þegar fjármálaráðherra segir að hér sé orðinn of mikill jöfnuður, hann er þá á kostnað þeirra sem minnst hafa og það er greinilega stefnan hér því bætur til þeirra sem minnst hafa, eins og almannatryggingar, eiga að hækka um 1% umfram verðbólgu á árunum 2016–2019. Við Vinstri græn getum ómögulega fellt okkur við þann ójöfnuð sem birtist í þessu plaggi og þess vegna viljum við ræða það mjög ítarlega.