144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu sem varpaði vel ljósi á ýmsa veikleika þessa frumvarps. Ég tek undir það með henni að það er sannarlega þörf á að ræða frumvarpið ítarlega. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé mjög gott að svona áætlun komi fram. Það er í samræmi við þingsköp sem voru samþykkt 2011 og eitt af því sem fyrri ríkisstjórn bjó sig undir að gera. Reyndar lagði hún líka fram sérstakar greinargerðir með fjárlagafrumvörpum sínum sem núverandi ríkisstjórn eiginlega rauf á síðustu tveimur árum þannig að það er mjög jákvætt að þetta kemur fram.

Kannski er það besta við þetta, fyrir utan að þetta er gott tæki til að skipuleggja inn í framtíðina, að það birtist nokkuð vel og skarpt hvaða stefna það er sem hæstv. núverandi ríkisstjórn fylgir. Þá kemur í ljós, fyrir utan hina ýmsu veikleika sem við höfum nú verið að reifa hér í dag, að það er ekkert pláss fyrir nýjan landspítala í þessum áætlunum ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi kemur fram að gert er ráð fyrir því að það séu 1,6% af vergri landsframleiðslu sem fari í innviði samfélagsins í uppbyggingu, meðal annars í samgöngur. Hvað þýðir það? Það þýðir að það er hvergi borð fyrir báru fyrr en þeim verkefnum sem núna eru í framkvæmd lýkur. Það er auðvitað partur af veikleikum.

Auðvitað vita allir að það mun verða ráðist í landspítala, það mun verða ráðist í auknar samgönguframkvæmdir til dæmis. Og er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að þegar þetta er tekið, og einnig sú óvissa sem blasir við um afnám gjaldeyrishafta, um kjaradeilurnar og einnig um sölu á hlut í Landsbanka, sem annar stjórnarflokkurinn er andsnúinn — þýðir það ekki í reynd að stoðirnar undir þessari áætlun eru ákaflega feysknar áður en búið er að samþykkja hana?