144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nokkuð viss um að þeir sem bíða eftir því að ná samningum við ríkið, hvort sem það er BHM eða Starfsgreinasambandið eða hverjir það eru sem eru í verkfallsaðgerðum eða á leiðinni í slíkar aðgerðir — að auðvitað er þetta algerlega óraunhæft og óboðlegt að ætla að bjóða fólki með rúm 200 þúsund á mánuði, með lægstu taxta, 2,5 eða 3% launahækkun. Ég held að við séum öll sammála um það og þess vegna hef ég einmitt gagnrýnt þetta með þann grunn sem hér er lagður.

Ég er ekki sammála því að vel hafi tekist til að öllu leyti. Ég tel að okkur hafi tekist betur til að sjálfsögðu í fyrri ríkisstjórn en hér finnst mér í síauknum mæli núverandi ríkisstjórn vera að færa til sín völd. Mér finnst framkvæmdarvaldið í hverju frumvarpinu á fætur öðru vera að draga til sín völd. Þess vegna hefði ég viljað sjá miklu meira fært út hér eins og til dæmis með þessa ramma sem frumvarp um opinber fjármál á að færa okkur og þetta er kannski vísir að þeirri hugsun. En það er svo erfitt að segja að þetta sé stefnumörkun ef við sjáum ekki í hvaða málaflokka ætlunin er að veita fjármagn.

Vissulega sjáum við hér ákveðna stefnu, við sjáum klárlega skattastefnu og ég held að við séum sammála um að hún hugnast okkur ekki, en stóra samhengið eru málaflokkarnir. Hvernig ætla menn að taka 1% niðurskurð í menntamálum, hvar ætla þeir að taka það í heilbrigðismálum o.s.frv.? Hvar á að koma niður? Hvar sjá menn, þeir sem þetta smíða, færi fyrir þetta aðhald í ljósi aðstæðna? Það er þetta sem kemur hvergi nokkurs staðar fram í frumvarpinu. Hvort sem það er Bankasýslan, stjórnarráðsfrumvarpið eða annað eru ráðherrar hér í auknum mæli að draga til sín völd frá þinginu.