144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að ríkið hefur afsalað sér gríðarlegum tekjum og er hægt að finna gott yfirlit um það á bls. 32 í greinargerðinni. Þar kemur fram samtala ef maður leggur allt saman sem er upp á 27,6 milljarða, ef ég man rétt. Það er (LRM: Árlegt afsal.) árlegt afsal. En ég vek eftirtekt hv. þingmanns á því að þar er þó ekki tekið tillit til lækkunar á veiðigjöldum og ekki tekið tillit til þeirra 5 milljarða lækkunar á tekjuskatti sem var fyrsta verk ríkisstjórnarinnar, svo það komi algerlega skýrt fram.

Hv. þingmaður sagði að þessi áætlun væri ekki góðar fréttir fyrir þá sem nú standa í kjaradeilum. Herra trúr, mæli hún þingkvenna heilust. Það eru heldur ekki góðar fréttir fyrir okkur sem byggjum okkar starf á félagslegum jöfnuði að sjá gert ráð fyrir því, þegar við erum að vinna okkur upp í tiltölulega góðum árum, að samneyslan aukist um 1,6% á milli ára samkvæmt þessari áætlun. Fyrir hrun um 4% á ári. Þá sjáum við í hvað stefnir. (Forseti hringir.) Skatttekjur eiga að lækka hlutfall af vergri landsframleiðslu úr 29,9% niður í 26,7%. Allt stefnir hér að sama ósi.