144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýddi hér á ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, prýðisræðu, og hún kom víða við. Það er sannarlega jákvætt í þessari umræðu að við erum að ræða meginlínur, meginstærðir, heildarmyndina, og eins og í hefðbundinni stefnumótun nálgumst við það að vita hvert við viljum fara og þannig hefur umræðan verið. Það er það jákvæða við þetta.

Það kemur sannarlega fram, bæði í umræðum og í þessari áætlun sem við ræðum nú, ríkisfjármálaáætlun hæstv. fjármálaráðherra, að til staðar eru óvissuþættir. Stóru óvissuþættirnir eru losun fjármagnshafta og deilur á vinnumarkaði. Það er bara eðli máls að við ræðum það hér og möguleikana í því.

Það náðist árangur. Þar ætla ég að staldra við einn punkt í ræðu hv. þingmanns og bera fram spurningu í framhaldinu. Hún vitnaði til orða á bls. 10 þar sem rætt er um að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin hafi náð samkomulagi um hógværa, hófstillta samninga fyrir rösku ári síðan. Mæld aukning kaupmáttar er 5,3% samkvæmt upplýsingum. Skildi ég hv. þingmann rétt að hún hefði viljað sjá meiri launahækkanir á kostnað kaupmáttar? Við deilum ekkert um það að 300 þús. kr. lágmarkslaun er eitthvað sem við viljum öll sjá. En spurningin er sem sagt þessi: Hefði hún viljað sjá meiri (Forseti hringir.) hækkanir, taxtahækkanir þá?