144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það bera margir ábyrgð þegar laun og kjör fólks eru annars vegar. Þar eru stjórnendur fyrirtækja og ríkið og á ýmsum stöðum eru ákvarðanir um kaup og kjör teknar. Ég tel að það þurfi ekki alltaf að tala um prósentuhækkanir því það kemur þeim sem eru á lægri launum miklu betur að fá krónutöluhækkanir. Þær eru auðvitað ekki há upphæð, hvað þýðir t.d. upphæðin sem Starfsgreinasambandið er að tala um, 300 þús. kr. á þremur árum? Hún þýðir að eftir þrjú ár fær launamaðurinn 228 þús. kr. útborgað, eftir þrjú ár, það er það sem 300 þús. kr. í mánaðarkaup þýðir. Fer þjóðfélagið á hliðina (Forseti hringir.) við það? Það held ég ekki. Menn verða bara að kyngja því að það verður að jafna kjörin og taka það frá þeim sem (Forseti hringir.) mest hafa og ekki fella niður auðlegðarskatt.