144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar, undir liðnum störf þingsins, að ræða um þrjú mjög mikilvæg þingmál. Eitt hefur verið flutt, þ.e. náttúrupassinn, af hæstv. ráðherra. Málið fékk vægast sagt mjög slæma útreið hér við 1. umr. og er komið til okkar í atvinnuveganefnd en hefur ekki verið rætt og verður ekki klárað, miðað við yfirlýsingar sem komið hafa á þessu þingi, þannig að það er dautt, þetta mjög svo mikilvæga mál. Ábyrgð á þessu er ekki hægt að vísa á neinn annan en hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur, hvað þetta klúður varðar.

Hin tvö frumvörpin sem mig langar að gera að umfjöllunarefni eru þau sem við höfum heyrt um, tvö húsnæðismál, mjög mikilvæg frumvörp frá hæstv. félagsmálaráðherra, sem voru send í fjármálaráðuneytið fyrir töluvert löngu og eru þar enn í kostnaðarmati. Hæstv. ráðherra hefur sent starfsmönnum fjármálaskrifstofunnar orkustangir til að vinna kostnaðarmatið hraðar en ég held að ekki vanti kraftinn þar til að vinna málið, ég held að það sé frekar það að ráðherrann hefur ekki stuðning fyrir málinu innan ríkisstjórnar.

Í gær gerðist það svo hér, í lokasvari ráðherra um allt annað mál, um annars konar húsnæðismál, að ráðherra sagði og gaf í skyn að þessi frumvörp kæmu ekki fram vegna þess að fjármálaráðuneytið hefði ekki klárað þau. Þar með eru komin tvö þýðingarmikil mál sem allir eru að bíða eftir, sama hvort það eru íbúðakaupendur, kaupendur að fyrstu íbúð eða leigjendur, sem verða þá ekki rædd og ekki kláruð. Það klúður skrifast á hæstv. félagsmálaráðherra og ríkisstjórnina í heild. Hún hefur ekki stuðning fyrir þessum málum og þess vegna koma þau ekki fram.

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á þessum þremur málum hér og slugsvinnubrögðum þeirra ráðherra sem ég hef hér gert að umtalsefni. Ég er mjög óánægður með að málin skuli ekki komast til afgreiðslu á þessu þingi.