144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú þegar er að skapast svigrúm til að bæta kjör ýmissa hópa í landinu er það grundvallaratriði að kjarabætur aldraðra og öryrkja séu þar líka á dagskránni. Þegar við tölum um lægstlaunuðu hópana í samfélaginu, þá sem raunverulega eru með 200 þús. kr. á mánuði, eru þar stærstu hóparnir tugir þúsunda aldraðra og öryrkja sem ekki hafa notið launaskriðsins, ekki hafa notið hins mikið vaxandi kaupmáttar (VigH: … Samfylkingin …)og nauðsynlegt er að njóti ávaxtanna af efnahagsuppbyggingu undanfarinna ára í þeim kjarabótum sem nú fara í hönd í samfélaginu. (VigH: Sex ár í ríkisstjórn.) Þegar menn tala um að lágmarkslaun í landinu þurfi á tilteknum tíma að ná 300 þús. kr. er auðvitað um leið verið að segja að þessir hópar, öryrkjar og ellilífeyrisþegar, þeir sem eru á lægstu laununum í landinu, þurfi sömuleiðis slíkra leiðréttinga við. Ég brýni alþingismenn, ríkisstjórnina og aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að þessir hópar verði ekki skildir eftir í þeim kjarasamningum sem í hönd fara, heldur verði þeim tryggðar sömu leiðréttingar og öðrum. Til að mynda hefur helmingur öryrkja engar tekjur úr lífeyrissjóði, aðeins strípaðar bæturnar frá Tryggingastofnun ríkisins. Bæði um öryrkja og aldraða gildir það að ef menn hafa lítils háttar tekjur, hvort heldur eru úr lífeyrissjóði, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur, er það jafnharðan klipið af þeim aftur svo kalla má skipulagða (Forseti hringir.) fátæktargildru.