144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Alþjóðlegur baráttudagur verkafólks er núna á föstudaginn. Verkafólk vítt og breitt um landið heyr baráttu fyrir bættum kjörum. Það sem kemur frá þessari ríkisstjórn er ekki mjög uppbyggilegt eins og fram hefur komið hjá hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann talar um að mögulega hafi verið gengið of langt í að bæta eða jafna kjörin í landinu. Það er nú innlegg hæstv. ríkisstjórnar inn í það erfiða ástand sem nú ríkir.

Einhvern tímann talaði Sjálfstæðisflokkurinn um stétt með stétt, það var slagorð hjá Sjálfstæðisflokknum, Stétt með stétt. Hvar er sá flokkur núna ef hann skilur ekki að launafólk í landinu þarf að lifa af hærri launum en rétt rúmum 200 þúsund á mánuði? Á flokksþingi Framsóknarflokksins töluðu menn digurbarkalega um að standa með láglaunafólki. Ég kalla eftir því að þessir flokkar og forustumenn þeirra, hæstv. ráðherrar þessara flokka, sýni þá í verki að þeir standi stétt með stétt og standi með launabaráttu fólksins í landinu nú við þessar erfiðu aðstæður. Þeir hafa tækifæri til þess gegnum samninganefnd sína við BHM og þeir hafa líka tækifæri til þess með því að hafa kjörin fyrir láglaunafólk ekki miklu verri en þau þurfa að vera. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson talaði um að fyrri ríkisstjórn hefði lagt 1 milljarð á fólkið í landinu með sykurskatti. En hvað gerir þessi ríkisstjórn? Hún leggur 11 milljarða á landsmenn með matarskatti þar sem innifalið er hollustufæði eins og grænmeti og ávextir. Er nú ekki mikilvægara að fólkið í landinu geti keypt sér hollustu en sleppt nammibarnum (Forseti hringir.) um helgar? Ég held að þessi ríkisstjórn ætti að snúa sér að því (Forseti hringir.) að bæta kjör fólksins í landinu en ekki vera með innantómar yfirlýsingar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)