144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það liggur við að ég biðji afsökunar á því að koma hingað aftur til að halda stutta tölu en þetta mál er eigi að síður þannig vaxið að það kallar á grundvallarumræðu vegna þess að hér er verið að leggja burðarása í ríkisfjármálum til framtíðar.

Ég sagði áðan að ríkisfjármálaáætlun af þessu tagi væri líka eins konar spegill sem hægt væri að bera upp að stefnu núverandi ríkisstjórnar. Ég segi alveg hreinskilnislega að ég tel að stefnan sem birtist þar sé ekki alveg sú sem ég hefði viljað sjá þarna. Hún hefur ekki að leiðarljósi félagslegan jöfnuð eftir því sem ég kemst næst með því að hafa grandlesið frumvarpið.

Ég hefði viljað spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem því miður getur ekki verið við þessa umræðu, sem satt að segja er nokkuð óvanalegt gagnvart svona lykilmáli, ákveðinna spurninga um tölur varðandi skatta. En nú ber svo vel í veiði að næstöflugasti ráðherrann er á staðnum, hæstv. félagsmálaráðherra, þannig að ég leyfi mér þá að spyrja hana út í það í staðinn. Það kemur fram í þessari þingsályktunartillögu að skatttekjurnar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu munu lækka úr 28,8% í 26,9% árið 2019 og ég spyr: Hvernig kemur þetta fram? Hvaða skattar eru það sem væntanlega fylgja ekki landsframleiðslunni? Er verið að boða þarna eitthvað sem sennilega mælt í krónum má meta upp á verulegar skattalækkanir? Hvar á þessa að sjá stað í fjárlagafrumvörpunum á þessum árum? Ég vildi gjarnan fá svar við því frá hæstv. félagsmálaráðherra því að ég veit að hún er vel að sér í ríkisfjármálunum og hefur eins og kunnugt er lagt gjörva hönd að því að koma málum þar í gegn þó að ekki viti ég hvernig orkubitagjafir hennar hafa gagnast henni hingað til.

Hins vegar er líka mikilvægt, miðað við þær yfirlýsingar sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur gefið á undanförnum missirum um bætur á lífeyri aldraðra, á framfærslu öryrkja en ekki síst á auknum bótum inn í húsnæðiskerfið og auknum fjárveitingum þangað, að hún skýri fyrir vesalingi eins og mér sem stend hérna eins og ræfill eftir að hafa lesið þessa þingsályktunartillögu út í gegn án þess að sjá í ríkisfjármálaáætlun sem varðar hina breiðu drætti fjárlagafrumvarpa til ársins 2019 gert ráð fyrir aukningu í þessa málaflokka hvar hægt sé að sjá og lesa úr þessari þingsályktunartillögu beinlínis gert ráð fyrir því að hæstv. félagsmálaráðherra verði gert kleift að standa við yfirlýsingar sínar um bætur á lífeyri til aldraðra, um aukningu á framfærslu öryrkja og sömuleiðis á auknum fjárveitingum til húsnæðiskerfisins. Hvar eru þessi mál stödd? Lætur hæstv. félagsmálaráðherra nægja að sýna tennurnar, urra pínulítið — en bítur aldrei? Lætur hæstv. félagsmálaráðherra Sjálfstæðisflokkinn valtra yfir sig í öllum þeim helstu málum sem hún ber fyrir brjósti?

Ég lýsti því yfir og var satt að segja skammaður fyrir af sumum að ég stend með hæstv. félagsmálaráðherra í viðleitni hennar til að fá auknar fjárveitingar inn í húsnæðiskerfið. Við vitum öll hina miklu raunasögu hennar þar sem hún hefur jafnvel talið nauðsynlegt að sýna starfsmönnum fjármálaráðuneytisins örlítið inn í sálardjúp sín eins og frægt varð hér á dögunum þegar hún sendi þeim orkubitana. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra af því að hún er við umræðuna: Hefur það dugað?

Í fyrsta lagi, svörin sem ég vildi gjarnan fá eru við því hvenær megi gera ráð fyrir því að frumvörpin sem hún hefur talað um að komi á allra næstu dögum skreppi loksins úr greipum fjármálaráðuneytisins inn í ríkisstjórnina og verði afgreidd. Ég spyr hana hreint út: Má gera ráð fyrir því að þessi frumvörp komi fram á næstu vikum? Ef ekki, getur hún þá sagt okkur hvort þau komi fram fyrir þinglok?

Í öðru lagi óska ég eftir því að hæstv. ráðherra sýni mér fram á það hvar í þessari þingsályktunartillögu sem við erum að ræða er gert ráð fyrir þeirri aukningu til öryrkja, til aldraðra og inn í húsnæðiskerfið sem hún hefur gefið svo hástemmdar yfirlýsingar um?