144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra ræðuna. Ég vil fyrst segja að ég tel mjög jákvætt að hér sé verið að auka húsnæðisöryggi fólks á leigumarkaði, en vil þó benda á að það húsnæðisöryggi á leigumarkaði verður best tryggt með öflugum leigufélögum og ég sakna þess að samhliða því séum við að fjalla um frumvarp um stofnstyrki og húsnæðisbætur. Ég vil því inna hæstv. ráðherra eftir því hvort við getum gert ráð fyrir að við fáum það frumvarp inn í þingið fljótlega svo að við getum fjallað um það samhliða þeim tveimur frumvörpum sem ráðherra mun mæla fyrir í dag, annars vegar um breytingar á húsaleigulögum og hins vegar um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Það er mjög mikilvægt og það er í raun og veru jafnvel brýnna en þetta annars ágæta mál.

Ég vil auk þeirrar spurningar í þessu andsvari spyrja tveggja, annars vegar varðandi tryggingarféð. Það verður sem sagt bannað að taka fyrirframgreiðslu leigu, en heimilt er og settar verða skýrari reglur um hvernig geyma eigi slíkt tryggingarfé, en það getur numið allt að fjögurra mánaða leigu. Ég vil spyrja ráðherra af hverju ákveðið var að hafa það fjóra mánuði. Það eru háar fjárhæðir sem geta verið þarna undir og af hverju það hafi verið metið nauðsynlegt að hafa það svo langan tíma og hvort það hefði ekki mátt stytta þann tíma í þrjá mánuði eða jafnvel tvo.

Þá vildi ég spyrja út í tímann. Ég er alveg sammála því að ekki gildi það sama um einstaklinga og félög, en hvort 12 mánaða uppsagnarfrestur megi ekki jafnvel vera lengri hjá leigufélögum.