144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir ákallaði líka þingið að taka þátt í því að ákalla fjármálaráðuneytið að koma þessum málum hér inn. Þetta er nú skringileg staða, en það er óheppilegt að þau séu ekki hér samhliða eða það mál sem þar er inni, hitt bíður haustsins.

Ég endurtek spurninguna um tryggingarféð, hvort það hefði ekki mátt vera styttri tími. Varðandi lengingu á uppsagnarfrestinum er ég alveg sammála því að ólíkt er hvort það er leigufélag sem leigir út húsnæði eða einstaklingur og að áætlaður sé lengri uppsagnarfrestur fyrir leigufélög. Ég hefði talið að hann mætti jafnvel vera lengri enda eru aðrar leiðir til þess að segja upp leigusamningum ef leigjendur standa ekki við sinn samning. Ég vildi heyra aðeins um þetta, um tryggingarféð, hversu margra mánaða leiga verður og uppsögn á leigusamningi.

Síðan langar mig að vita af því að í greinargerðinni segir um tryggingarfé: „… þykir jafnframt brýnt að skoða hvaða leiðir eru færar til að flýta fyrir aðfarargerð þegar þær aðstæður eru uppi að leigjandi stendur ekki við leigusamning …“ Ég er alveg sammála því að þegar verið er að auka skyldur á leigusala þarf jafnframt að tryggja að það verði ekki svo óheillavænlegt að leigja út húsnæði að ekki verði hægt að losna við leigjendur sem ekki standa við gerða samninga. En mér virðist sem það sé ekki — það segir bara „þykir jafnframt brýnt …“ Ég get ekki (Forseti hringir.) séð að í raun og veru sé verið að auðvelda það með frumvarpinu. (Forseti hringir.) Getur ráðherra leitt mig inn á rétta braut og aukið skilning minn á þessu?