144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir fyrirspurnina. Hún endurspeglaði að einhverju leyti ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers hér í störfum þingsins og ég hlustaði líka á. Ef eitthvað er þá hef ég kannski eilitlu meiri áhyggjur af því að það virðist vera að þingmenn Samfylkingarinnar séu að einhverju leyti búnir að gefa upp vonina um að þessi frumvörp komi hérna fram. Þessi ráðherra hefur svo sannarlega ekki gefist upp á því og við erum eins og kom fram í svari mínu við andsvari hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að þá erum við núna daglega að svara fyrirspurnum frá fjármálaráðuneytinu. Þar er verið að vinna af fullum krafti að því að reikna út kostnaðaráhrifin af þessum málum. Þau eru hins vegar stór. Þau eru flókin og ég er tilbúin til að vera hér eins lengi og þess þarf og ég vonast til að það sama gildi um hv. þingmann.