144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt um athafnir félagsmálaráðherra að þær séu bæði óskiljanlegar og óþolandi. Það verður að taka undir það að því leytinu til sem gagnrýni ráðherra félagsmála hefur snúið að starfsmönnum fjármálaráðuneytisins því að það veit hver maður að það er ekki á ábyrgð starfsmanna fjármálaráðuneytisins að málið situr þar fast. Það er pólitísk ákvörðun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að málið fer ekki út úr ráðuneytinu. Félagsmálaráðherra á að beina orðum sínum að Bjarna Benediktssyni en ekki starfsmönnum fjármálaráðuneytisins um þetta mál. Og hvers vegna sitja málin föst hjá fjármálaráðherra? Það er vegna þess að ríkisstjórnin, Framsóknarflokkurinn meðtalinn, hefur ekki tekið ákvarðanir um neinar fjárveitingar í þennan málaflokk. Það er ekkert að finna í fjárlögum fyrir árið 2015 til þessara frumvarpa ráðherrans. Félagsmálaráðherra hefur þess vegna ekki tryggt fjármuni til þeirra verkefna sem hún segist þó vilja sinna. Við vorum hér rétt í þessu að fjalla um langtímaáætlun ríkissjóðs í fjármálum. Þar er heldur ekki að sjá neina stórfellda fjármuni í stofnstyrki og húsnæðisbætur til leigjenda, ekki í ár, ekki á næsta ári og ekki heldur á þarnæsta ári.

Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra: Hvar eru peningarnir, hæstv. ráðherra? Hvar eru peningarnir? Því að orðin eru lítils virði og frumvörpin eru lítils virði ef ráðherrann hefur ekki peningana sem þarf til þess að gera úrbætur á húsnæðismarkaði.