144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur spurninguna. Það er stuttur tími eftir af þessu þingi, en ég er nú ekki búin að gefa upp vonina um að þetta mál komi fram. Það virðist þó vera djúpt á því og það virðast vera pólitískar ástæður fyrir töfinni, þ.e. að það sé einfaldlega ekki einhugur um að auka fjármuni úr ríkissjóði til leigjenda.

Ég tel að komi það fram þá er ekki sett nýtt þing fyrr en í september í haust þannig að þá mun gefast nægur tími til vinnslu á málinu. Það má finna ýmsar leiðir til þess að tryggja að þessi mál fái framgang í þinginu án þess að hér sé þing að störfum allt sumarið. Það er fyrst og fremst nefndarvinna sem fara þarf fram og mat á áhrifum frumvarpanna og slíkt. Eftir alla þá yfirlegu sem virðist hafa farið fram í fjármálaráðuneytinu ætti það að vera nokkuð vel unnið þegar það kemur hér inn.

Ef tryggja á öryggi leigjenda með þeim hætti sem hæstv. ráðherra ætlar sér þurfum við náttúrlega að huga að því að öryggið fæst ekki nema með auknu framboði á húsnæði, því að það er skortur á húsnæði. Þessi frumvörp auka ekki framboðið á húsnæði. Er það kannski þvert á móti þannig að þetta muni hindra fólk í að leigja út húsnæði og draga enn frekar úr öryggi leigjenda ef fjármunirnir fylgja ekki með? Það er kannski það mat sem fara þarf fram í velferðarnefnd. Ef við metum það sem svo að í lagi sé að afgreiða málin þá standa þau kannski ekki alveg undir nafni.