144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[15:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á húsaleigulögum. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir mjög greinargóða ræðu um frumvarpið. Ég vil líka byrja á að segja að ég átti sæti í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem ráðherra skipaði í september 2013; skilaði sú nefnd af sér störfum og ítarlegri skýrslu í maí 2014. Þær tillögur sem koma fram í því frumvarpi sem hér um ræðir eru að miklum hluta byggðar á þeim þáttum og ábendingum sem komu fram frá verkefnisstjórninni.

Verkefnisstjórninni var falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, meðal annars með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem þess þurfa. Mig langar til þess að nýta þennan vettvang hér og þakka það traust sem mér var sýnt til að taka sæti í þessari nefndi, þetta var bæði lærdómsríkur og skemmtilegur tími.

Ég sit jafnframt í velferðarnefnd þingsins og þessu frumvarpi hefur verið vísað þangað til efnislegrar vinnslu. Ég trúi ekki öðru en að allir nefndarmenn séu sammála um að vinna frumvarpið vel og eftir þeim reglum sem við þurfum að fara eftir og reyna að koma því eins hratt og örugglega í gegnum nefndina og við mögulega getum.

Það er afar ánægjulegt að heyra orð hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns nefndarinnar, þá jákvæðni sem gætir hjá henni þegar hún talar um frumvarpið. Ég tel að við getum öll unnið mjög vel saman að því.

Frumvarpið er tengt öðrum frumvörpum er varða húsnæðismál. Annað er til umræðu hér síðar í dag og varðar lög um húsnæðissamvinnufélög og eru þessi frumvörp til mikilla bóta og stuðla að því að auka réttindi þeirra sem eru á leigumarkaði.

Eins og fram kom í störfum þingsins í dag þá eru tvö frumvörp enn föst í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu og varða þau stofnstyrki til uppbyggingar á leigufélögum og húsnæðisbætur. Ekki er hægt að koma í ræðu hér öðruvísi en að tala um mikilvægi þess að þau frumvörp nái að komast hér inn í þingið sem allra fyrst svo að við getum verið með öll frumvörpin til umræðu á sama tíma í velferðarnefnd þingsins. Þetta eru frumvörp sem skarast á ýmsum nótum og því væri afar gott að geta að einhverju leyti verið með þau til afgreiðslu á sama tíma.

Ef við snúum okkur að því frumvarpi sem hér um ræðir þá er það eitt af þeim frumvörpum er varða húsnæðismál og húsnæðisöryggi leigjenda og er mikilvægur liður í því að bæta öryggi þeirra sem eru á leigumarkaði, og er það vel. Ég ætla aðeins að fara í athugasemdir sem fylgja frumvarpinu og grípa niður hér og þar eftir því sem mér finnst efni og ástæða til.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo að komast megi hjá ágreiningi síðar. Áhersla er lögð á að um frjálsa samninga er að ræða milli leigusala og leigjenda, en þeirri samningsgerð er settur ákveðinn lagarammi. Sem dæmi má nefna að leitast er við að samræma þau úrræði sem leigjandi getur gripið til þegar leiguhúsnæði er ábótavant, hvort sem er í upphafi leigutíma eða síðar á leigutíma í kjölfar vanrækslu leigusala á viðhaldi hins leigða húsnæðis. Þarna getur verið um það að ræða að leigjandi getur farið fram á riftun leigusamnings ef vanefndir eru á því að bætt verði úr þeim ágöllum er leigjandi telur vera á leiguhúsnæði. Enn fremur eru lagðar til breytingar á því hvernig staðið skuli að úttektum á hinu leigða húsnæði þannig að aðilar komi sér saman um úttektaraðila í stað þess að sjálfkrafa sé leitað til byggingafulltrúa í sveitarfélögum þar sem húsnæðið er.

Fram hafa komið ákveðnar athugasemdir varðandi þetta ákvæði frá Félagi byggingafulltrúa og hér er verið að fara ákveðna millileið varðandi ábendingar frá Félagi leigusala. Þetta eru bara ábendingar sem nefndin mun taka til skoðunar og kanna hvernig unnið verður úr.

Meginefni frumvarpsins er meðal annars ætlað að auka réttaröryggi leigjanda, enda er mikilvægt að ákveðin festa sé til staðar í sambandi við leiguréttindi yfir íbúðarhúsnæði svo að tryggja megi húsnæðisöryggi fólks eins og frekast er unnt. Það er afar mikilvægt að auka réttindi þeirra sem eru á leigumarkaði og þeir sem eru á leigumarkaði búi við meira öryggi en áður. Við höfum séð, það sem við tölum oft um, að frá efnahagshruninu á haustmánuðum 2008 hefur hugsanagangur margra breyst. Maður heyrir það í kringum sig að margir tala um að þeir vilji frekar búa á leigumarkaði, sérstaklega ef réttindi þeirra sem eru á leigumarkaði væru meiri en þau eru og öryggi leigjenda meira og ef um langtímaleigu væri um að ræða. Þess vegna er mjög mikilvægt að við horfum til þess að fólk hafi þetta raunverulega val og öll þau réttindi skýrt og skorinort, hvernig það eigi að vera.

Snúum okkur aftur að frumvarpinu. Í því er leitast við að setja fram skýrari fyrirmæli en áður um hvernig samskiptum leigusala og leigjenda skuli háttað á gildistíma leigusamnings. Lagt er til að lögin heimili að aðilar komi sér saman um að skriflegar orðsendingar verði sendar rafrænt á milli enda algengt að fólk nýti sér tölvupóst í samskiptum sín á milli í dag. Þetta hlýtur að geta auðveldað mál mjög ef upp koma ágreiningsatriði varðandi þætti er varða leigusamning, að hægt sé að leita til skriflegra samskipta þarna á milli ef ágreiningur er.

Í frumvarpinu er jafnframt lögð áhersla á að samræma þau úrræði sem leigjandi getur gripið til gagnvart leigusala þegar ástand leiguhúsnæðis er talið ófullnægjandi miðað við fyrirhuguð not þess í upphafi leigutíma og síðar á leigutímanum í kjölfar þess að leigusali hefur ekki sinnt viðhaldi enda má ætla að afleiðingar fyrir leigjanda séu þær sömu í báðum tilvikum eða að minnsta kosti sambærilegar, leigjandi hefur til dæmis ekki getað farið fram á lækkun leigu sinni leigusali ekki viðhaldsskyldum sínum og strangari skilyrði eru fyrir riftun af hálfu leigjanda vegna vanrækslu viðhalds en vegna ófullnægjandi ástands í upphafi leigutíma. Við þessi skilyrði er verið að horfa til þeirra landa sem við berum okkur oft saman við, þ.e. til Norðurlandanna, en þar eru til sams konar reglur um riftun leigusamninga vegna ófullnægjandi ástands leiguhúsnæðis og vanrækslu viðhalds.

Í frumvarpi þessu er því leitast við að gera þeim tryggingum betur skil sem leigusali getur gert kröfu um og gera þá breytingu að eingöngu verði heimilt að krefjast trygginga en ekki fyrirframgreiðslu leigu. Í ræðum hv. þingmanna hér í dag hafa þeir verið að velta fyrir sér hvort þessi tími geti verið of langur, þarna er talað um fjögurra mánaða tímabil. Ég get tekið undir það að oft er þarna um að ræða hóp sem hefur lágar tekjur og á kannski erfitt með að standa straum af mörgum mánuðum. Ég tel þetta þó til bóta en þetta er eitt af þeim atriðum sem nefndin mun taka til skoðunar og meta eftir umsagnir og gestakomur.

Í þessum málum vegast á ólík sjónarmið leigusala og leigjenda, en hæfilegt þykir að leigusali geti takmarkað tjón sitt sem nemur fjögurra mánaða leigugreiðslum að teknu tilliti til þess að oft getur verið um að ræða háa fjárhæð þegar litið er almennt til fjárhagslegra aðstæðna launafólks hér á landi. Hins vegar þykir jafnframt brýnt að skoða hvaða leiðir eru færar til að flýta fyrir aðfarargerð þegar þær aðstæður eru uppi að leigjandi stendur ekki við leigusamning, því að auðvitað þarf alltaf að horfa til beggja hliða, bæði réttinda leigusala og leigutaka.

Einnig er fjallað um að stytta þann tíma sem leigusali getur bundið tryggingarfé leigutaka. Þarna er verið að tala um að leigusali þurfi að skila þessu tryggingarfé innan mánaðar. Tel ég það vera til mikilla bóta vegna þess að oft, þegar einstaklingar eru að fara úr einu leiguhúsnæði yfir í annað, þá eru þeir gjarnan að taka húsnæði á leigu annars staðar eða kaupa eign og þurfa jafnvel að nota þá fjármuni sem fastir eru hjá leigusala í það. Það er því mjög gott að það sé ekki langur tími, enda, eins og fram kemur í frumvarpinu, eigi leigusali vel að geta fundið það út innan mánaðar hvort nýta þurfi það fé eða ekki.

Lagt er til að gerður verði greinarmunur á lengd uppsagnarfrests þegar leigusali er annars vegar einstaklingur og hins vegar þegar um er að ræða leigufélag sem í atvinnuskyni leigir út íbúðarhúsnæði. Markmiðið er að stuðla að því að gerður sé ótímabundinn leigusamningar í því skyni að stuðla að langtímaleigu. Mikilvægt er að við reynum að finna úrræði til að stuðla að langtímaleigu, því að það eykur öryggi leigjenda á húsnæðismarkaði og hefur mörg jákvæð áhrif í för með sér. Ef við horfum bara á börn sem búa í leiguhúsnæði, upp á félagslega stöðu þeirra, að þau þurfi ekki sífellt að flytja á milli skólahverfa. Því er fagnað að reynt sé að finna leiðir til að vinna að langtímaleigu. Áfram er gert ráð fyrir sex mánaða uppsagnarfresti af hálfu leigusala þegar um er að ræða einstakling sem leigir út íbúð.

Ég ætla að fara að ljúka máli mínu hér, en þess ber að geta að í vinnu verkefnisstjórnarinnar, um framtíðarskipan húsnæðismála var mjög mikið samráð haft við hlutaðeigandi aðila, leigufélög og stéttarfélög og mjög marga aðila varðandi tillögurnar. Ég veit að mikið samráð var jafnframt haft við marga hlutaðeigandi aðila og hagsmunahópa þegar frumvarpið sjálft var skrifað og er það til góða og vel gert. Það er mjög mikilvægt, því að þá fáum við ólík sjónarhorn og sjónarmið fólks og samtaka og er það virkilega vel. Þannig eru meiri líkur á að sátt náist í þeim málum sem unnið er að.

Þegar þetta frumvarp verður að lögum mun réttaröryggi leigjenda aukast allverulega. Ákvæði um þá verða skýrari og þetta er allt til bóta. Ég hlakka til að takast á við frumvarpið og önnur húsnæðisfrumvörp í velferðarnefnd þingsins og tel að allir nefndarmenn, sem koma að málinu, muni geta unnið vel saman. Það virðist vera mikill samhljómur í því að við viljum öll stefna í þessa átt með aukið öryggi íbúa á leigumarkaði í huga.