144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem lýtur að því að styrkja réttarstöðu fólks á leigumarkaði og er margt ágætt um það að segja. Það hefur sannarlega verið lengi þörf á því að skerpa á réttindum fólks á leigumarkaði. Trúlega er kannski hvað mestur ávinningurinn fyrir leigjendur fólginn í því sem lýtur að uppsagnarfresti og öðrum slíkum réttindum í frumvarpinu, þar sem verið er að lengja uppsagnarfrest og auka réttindi fólks sem er á leigumarkaði og í sjálfu sér löngu orðið brýnt að ráðast í þá réttarbót. Ég vona að vel gangi í velferðarnefnd að vinna að málinu og fá að því umsagnaraðila og sjónarmið og þróa það áfram, bæta og breyta, vegna þess að því miður er ekki unnt að lýsa stuðningi við málið eins og það liggur fyrir. Það hlýtur að vekja okkur nokkuð til umhugsunar um það með hvaða hætti er unnið að málum í ríkisstjórn nú um stundir því þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum hér mál sem eru í eðli sínu þjóðþrifamál og á að vera býsna mikil samstaða um í þinginu, hafa tekið mjög langan tíma, hálft kjörtímabil, tvö ár í undirbúningi áður en þau koma hingað inn í þingið, og koma síðan ekki betur búin en svo að lykilaðilar í málaflokknum þurfa fara fram á opinberum vettvangi og gera alvarlegar athugasemdir við grundvallaratriði í málinu.

Hér kemur hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra ekki sem einsdæmi, því miður, heldur bara enn einn ráðherrann úr ríkisstjórninni og mælir fyrir frumvarpi við 1. umr. þar sem hann lýsir því yfir að það þurfi að vísu að gera breytingar á málinu. Þetta verklag hlýtur að vekja okkur í þinginu til umhugsunar. Það er ekki gott að á tveimur árum sé ekki hægt að vinna að frumvarpi um réttarbót til handa leigjendum sem er mál sem á stuðningsmenn í öllum stjórnmálaflokkunum, hygg ég, og skilning í samfélaginu og sannarlega hjá mörgum rekstraraðilum á þessum markaði eins og þeim fyrirtækjum sem hér voru nefnd áðan, Félagsstofnun stúdenta, Félagsbústöðum og Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, allt saman stofnanir og fyrirtæki sem bera hag leigjenda fyrst og fremst fyrir brjósti þótt þeir séu rekendur slíks húsnæðis. Það er slæmt að ekki sé hægt að ganga frá frumvarpi þannig að um það sé tiltölulega breið samstaða þegar það kemur hingað inn og málið í tiltölulega endanlegum búningi þegar ráðherrann hefur haft tvö heil ár til að vinna að málinu, hálft kjörtímabil. Það verður bara að segja eins og er að þetta er ekki nógu gott, sérstaklega ekki þegar athugasemdirnar eru jafn afgerandi og þær sem hafa komið fram.

Við erum með ferli í Stjórnarráðinu þar sem ráðuneytin eiga að kynna fyrirætlanir sínar í frumvörpum eins og þessu fyrir helstu aðilum, hagsmunaaðilum, samtökum, fyrirtækjum o.s.frv., eiga að gefa færi á umsögnum og álitum, eiga að rannsaka mál og vinna úr þeim ábendingum þannig að hér komi inn frumvörp sem eru sem næst því að vera hin endanlega löggjöf til rýningar í þinginu. Þau eiga ekki að koma fram eftir tveggja ára vinnu þannig að ráðherrann þurfi að byrja á því að biðja nefndina um að laga það sem hann var sjálfur að leggja fram. Ég ítreka að þetta er ekki bundið við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra heldur gerist bara aftur og aftur. Það er ekki góð notkun á tíma að standa með þeim hætti að málum.

Hér var fyrr í umræðunni vitnað til þess sem hefur komið frá Samtökum leigjenda á Íslandi og ég held að sé auðvitað ríkust ástæða fyrir hv. nefnd að kynna sér vel þau sjónarmið. Mér hefur því miður ekki gefist kostur á því að fara efnislega ofan í þær athugasemdir sem þau ágætu samtök hafa haft við frumvarpið en það er sá hópur sem við hljótum fyrst og fremst að hlusta eftir athugasemdum frá. Það eru samtök fólksins sjálfs sem er á leigumarkaði, býr við þessar aðstæður og þarfnast þeirra réttinda sem þingið með þessari löggjöf getur tryggt þeim. Ég veit og treysti því að nefndin mun fara vel ofan í þær athugasemdir sem koma frá þeim samtökum.

Síðan eru þau atriði sem lúta að m.a. rétti Félagsstofnunar stúdenta til að segja upp leigusamningum ef fólk er ekki lengur í námi. Það er mikið grundvallaratriði fyrir rekstur á íbúðum fyrir stúdenta. Það sér auðvitað hver í hendi sér hvers konar stífla það yrði ef nemendur sem hafa lokið námi gætu setið áfram í íbúðum sínum í einhvern tíma og það yrði til þess að nýir nemendur við viðkomandi skóla kæmust ekki í húsnæði vegna þess að það losnaði ekki. Um leið og mikilvægt er að tryggja það að réttur fólks og m.a. uppsagnarfresturinn sé eðlilegur og sanngjarn þá verður auðvitað líka að taka tillit til sérstakrar skipunar eins og er með stúdentaíbúðir og getur verið um ýmislegt annað húsnæði sem hér er um fjallað.

Vandinn hins vegar við það að reyna að tryggja réttindi á leigumarkaði er náttúrlega bara fyrst og fremst sá að það bólar ekkert á því að ráðherrann eða ríkisstjórnin ætli að taka á því grundvallarvandamáli að það er skortur, það er einfaldlega verulegur skortur á þessum markaði, skortur á framboði á húsnæði og það veldur því að verð á markaði eru þannig að fólk fær illa við það ráðið. Við þær aðstæður er því miður þannig að réttindi leigjenda eru og verða fyrir borð borin. Við getum leitast við að tryggja þau eins og við getum með lagasetningu en almennileg bragarbót verður ekki gerð á nema með því að styðja og styrkja framboð á leigumarkaði og stuðning við leigjendur. Það kostar peninga. Það er augljóst af þeim málum sem hér eru á dagskránni í dag að það eru bara þau mál sem kosta enga peninga því málin sem kosta peninga og fela í sér raunverulegan vilja til aðgerða á leigumarkaði eru föst hjá Bjarna Benediktssyni uppi í fjármálaráðuneyti. Hvorki fjárlaganefnd hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur né ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja neinum fjármunum til að gera bragarbót á leigumarkaðnum eða á húsnæðismarkaðnum yfir höfuð og það skapar þá erfiðu stöðu sem við erum í.

Byggingarkostnaður er um þessar mundir kannski 300 þús. kr. á fermetra. Það þýðir að 80 fermetra íbúð kostar í byggingu kannski 24 millj. kr. Til að standa undir rekstri og vaxtakostnaði vegna þess hversu miklu hærri vextir eru hér en í nágrannalöndunum þá þarf til að standa undir rekstrinum kannski 2 millj. kr. á ári í leigutekjur. Það eru hátt í 200 þús. kr. á mánuði. Það er einfaldlega þannig að sú upphæð er bara hátt í þær tekjur sem margir á leigumarkaði eru með, t.d. örorkulífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar sem ekki hafa réttindi í lífeyrissjóðum, þeir sem eru á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, atvinnuleysisbótum eða búa við lægstu launin. Það eru auðvitað þeir hópar sem eru stærstir á leigumarkaðnum. Þess vegna verða þessu fólki ekki sköpuð nein lífvænleg skilyrði á leigumarkaði nema við notum sameiginlega sjóði okkar til að létta því róðurinn. Hægt er að gera það með stofnstyrkjum en það kostar peninga. Þá niðurgreiða menn byggingarkostnaðinn í upphafi til að hægt sé að hafa leiguverð lægra til framtíðar. Hægt er að gera það með því að sveitarfélögin leggi til lóðir gegn litlu endurgjaldi eða jafnvel engu. Síðan er það hægt með því að gera þá grundvallarbreytingu sem við lögðum til í lok síðasta kjörtímabils og er sannfæring mín að sé eina rétta leiðin til stuðnings við leigjendur, að leigjendur fái sama stuðning úr ríkissjóði og við sem höfum keypt okkur húsnæði.

Það er hrópleg ósanngirni að við sem höfum keypt okkur húsnæði fáum verulegar vaxtabætur úr ríkissjóði og miklu ríkulegri slíkar bætur en hinir sem hafa ekki komist í gegnum greiðslumat vegna þess að þeir hafa haft lægri tekjur eða átt minni eignir en við sem höfum komist í gegnum greiðslumat og getað keypt okkur eigið húsnæði. Það er algerlega hróplegt óréttlæti að þeir fái miklu minni stuðning til húsnæðismála en við hin, að húsaleigubætur séu miklu lægri en vaxtabætur. Auðvitað á það ekki að vera þannig. Auðvitað eiga allir Íslendingar að eiga rétt á sama húsnæðisstuðningi, hvort sem þeir leigja húsnæði eða eiga það. Ef einhver mismunur ætti að vera hér á, þá ætti hann að vera einmitt á hinn veginn, að þeir sem þurfa að búa við hið ósanngjarna verð sem er á leigumarkaðnum fengju meiri stuðning úr ríkissjóði en við hin sem erum svo lánsöm að vera í eigin húsnæði. Það að vaxtabætur séu miklu hærri en húsaleigubætur er sannarlega réttlæti á hvolfi, virðulegur forseti.

Því miður verður að segja að þótt það sé gott og þarft að vinna að réttarbótum á húsaleigumarkaðnum og styrkja stöðu leigjenda vegur það satt að segja ekki sérlega þungt ef ekki kemur til vilji til að setja fjármagn til þeirra úrræða sem þarf á þessum markaði. Það verður auðvitað enn brýnna eftir að við innleiddum löggjöf um greiðslumat þar sem nýjar kynslóðir reka sig á að vegna þess að þær eiga ekki fyrir útborgun í íbúð, hafa ekki stofnfé milli handanna, þá komast þær ekki í gegnum greiðslumat og fá þar af leiðandi ekki lán til að kaupa sér húsnæði og þurfa þess vegna að leita út á þennan markað þar sem ekki er verið að skapa neitt nýtt húsnæði. Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin taki á þessu máli og láti í það þær fjárveitingar sem þarf. Þetta er ekki starfsmönnum fjármálaráðuneytisins að kenna. Það þarf ekki að senda embættismönnunum uppi í Arnarhvoli einhverja orkubita til að hressa þá við eftir páskana eða annað þess háttar. Þetta er auðvitað bara pólitík. Þetta snýst um forgangsröðun peninga og þess vegna eru málin ekki komin hingað inn. Og ef menn meina eitthvað með yfirlýsingum sínum um nauðsyn þess að gera eitthvað í húsnæðismálunum sem brenna nú sem aldrei fyrr á nýrri kynslóð sem er að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið þá þurfa þeir að setja fjármuni til þess. Við sáum í umræðunni um ríkisfjármál fyrr í dag því miður enga fjármuni á leiðinni inn í þetta verkefni, ekki á yfirstandandi ári, ekki á næsta ári og ekki heldur á þar næsta ári og ekki heldur á þar þar næsta ári, en sem betur fer verður búið að kjósa í millitíðinni.