144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Ég er sammála honum í því að við þurfum að nota sameiginlega sjóði til að taka þátt í að greiða kostnað við húsnæðiskerfið. Ég vil líka taka undir þau orð að eitthvað sé öfugsnúið við það að þátttaka hins opinbera í stuðningi vegna húsnæðiskostnaðar sé meiri til þeirra sem eiga húsnæðið sem þeir búa í en til þeirra sem eru á leigumarkaði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hann er glöggur maður og veit ýmislegt um marga hluti hvernig sú leið sem höfð er eftir hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, að hún hafi hvatt forsvarsmenn stéttarfélaga sem sátu á þingi ASÍ til að velta fyrir sér hvort til greina komi að stéttarfélögin stofni leigufélög sem verði þá rekin án gróðasjónarmiða, ég vil spyrja hv. þingmann hvaða kosti hann sæi á slíku, ef einhverja, og hvaða galla eða hverjar hætturnar gætu verið í slíku kerfi. Er þetta eitthvað sem við eigum að velta meira fyrir okkur? Þetta var mér alveg nýtt þegar ég las þessa frétt, mér hafði hreinlega ekki hugkvæmst þessi leið. Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður telur ástæðu til að staldra við og skoða betur?