144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála hv. þingmanni í því að hið opinbera verði að koma inn með fjármuni og að það leysi ekki vandann að félög leigjenda komi einvörðungu að málum. En ég er þó samt þeirrar skoðunar að þau félög séu engu að síður alveg gríðarlega mikilvæg og að án þeirra væri vandinn svo sannarlega miklu stærri en hann þó er. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann út í það sem við höfum svolítið rætt í dag, þ.e. brottfall 3. mgr. 2. gr. þar sem undanþágur eru felldar niður til þeirra sem leigja út til sérstakra hópa. Er hv. þingmaður mér sammála í því að það sé gríðarlega mikilvægt að við kippum ekki fótunum undan leigufélögum sem stunda útleigu sína með félagsleg sjónarmið að leiðarljósi, og að ef við eftir skoðun teljum að tryggja þurfi réttindi leigjenda eða styrkja þau með einhverjum hætti verðum við að fara einhverja aðra leið í að styrkja stöðu slíkra leigjenda en að fella þessa klausu út úr lögunum og gera þar með rekstur þessara leigufélaga jafnvel bara vonlausan?