144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ekki sé flókið að svara þeirri spurningu, einkum og sér í lagi þegar ekki virðist vera á dagskrá að gera neitt til þess að efla leigumarkaðinn, fjölga þar félögum eða aðilum, setja þar inn fjármuni til einhverra aðgerða, þá er það einfaldlega þannig að sá leigumarkaður sem þó er hvílir á nokkrum öflugum félagslegum einingum sem leigja út til sérstakra hópa, svo sem eins og Brynja – Hússjóður Öryrkjabandalagsins, Félagsstofnun stúdenta, Félagsbústaðir í Reykjavík og aðrir aðilar sem hafa sem betur fer byggt upp í gegnum árin mörg þúsund leiguíbúðir sem fjölmargar fjölskyldur byggja öryggi sitt í húsnæðismálum á. Það hlýtur auðvitað að vera algert grundvallaratriði í lagasetningu allri um húsaleigumarkaðinn að starfsemi og skilyrði þessara félaga séu tryggð, því að það er nú nóg ef menn ætla ekki að hafast neitt að á þeim markaði þó að þeir fari ekki að spilla því sem þó er að virka á honum.