144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[17:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið af minni hálfu, en það er erfitt að stilla sig um að leggja orð í belg þegar húsnæðismálin ber hér á góma og loksins fáum við eitthvað frá hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum annað en skuldaleiðréttinguna margfrægu.

Hér eru komin tvö frumvörp og eru hér á dagskrá hvort á fætur öðru og það fyrra um húsaleigulög. Þegar maður blaðar í því virðist fljótt á litið að verið sé að ýmsu leyti að lagfæra þar ýmis ákvæði og jafna stöðu aðila, leigusala og leigutaka, og heldur til réttarbóta fyrir leigutakann. Það er auðvitað ágætt mál. Ég geri því ekki lítið úr því að hér kunni að vera ýmsar tæknilegar lagfæringar sem eru til bóta, enda ekkert skrýtið því löggjöfin er náttúrlega komin nokkuð til ára sinna.

Eitthvað hefur mönnum þó mistekist í þeim efnum, heyri ég utan að frá mér, varðandi til dæmis það að fella alveg niður heimildir til að sérstök leigufélög megi í samningum við sína hópa hafa ýmis sérákvæði. Mér skilst að það valdi nokkru uppnámi og er eitthvað sem augljóslega þarf að líta á.

Stóra spurningin er: Hverju breytir þetta? Hvaða innlegg er þetta í lausn húsnæðisvandans sem er að teiknast upp með býsna alvarlegum hætti hér þessi missirin af að mörgu leyti skiljanlegum ástæðum þegar horft er til baka vegna hrunsins sem hér varð? Eða við trúum því enn sum að hér hafi orðið hrun á Íslandi? Það eru að vísu ekki allir þeirrar skoðunar, en ég geng út frá þeirri söguskýringu að hér hafi orðið ansi mikið hrun árið 2008 og byggingariðnaðurinn nánast eins og hann lagði sig fór á hliðina og það stóðu hálfbyggðar íbúðir úti um allt, sem að vísu varð svona smátt og smátt mjatlað upp til að klára. En það dró verulega úr byggingarmagninu, enda mátti kannski gera það. En þetta hefur sveiflast allt of langt yfir í hitt borðið og nú hefur um skeið verið byggt of lítið til að mæta nýjum árgöngum og þeim breytingum sem eru jafnt og þétt að verða. Færri búa kannski í hverju húsi, breytt líffræðileg staða með þjóðinni o.s.frv. Ef slíkt ástand safnast upp til einhverra ára getur ástandið á fasteignamarkaði orðið býsna alvarlegt, og það er held ég að verða það.

Greiningaraðilar og spekingar segja að vísu að ekki sé enn beinlínis komin fasteignabóla, en þó eru menn farnir að láta að því liggja, að minnsta kosti í 101, að á miðbæjarsvæðinu sé ástandið ansi mikið að nálgast bóluástand. Það er kannski ekkert skrýtið í ljósi þeirrar vöntunar sem er á húsnæði og vinsælt er að setja sig niður í þessum hluta bæjarins og mjög lítið af húsnæði bæst við annars staðar. En fleira kemur til að lítið hafi verið byggt. Það er að sjálfsögðu skuldaniðurfellingin, hún hefur þarna einhver væntingaráhrif. Gjaldeyrishöftin, það þarf að hafa þau í huga. Hluti af ástandinu er að fjárfestingarfélög hafa ruðst inn á markaðinn og keypt upp talsvert af íbúðum, séð það sem álitlegan fjárfestingarkost og kannski ekki margir aðrir girnilegir í boði. Um tíma var manni sagt að ástandið væri þannig á markaði á vissum svæðum í Reykjavík að umsvifalaust kæmu inn tilboð og yfirboð frá tilteknum fjárfestum sem væru að safna að sér húsnæði.

Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur leitt til þess að talsvert af húsnæði hefur farið í útleigu til ferðamanna og síðan eru skökk hlutföll á samsetningu húsnæðisins sem er í boði líka að verki þarna að einhverju leyti. Mjög sárlega vantar hæfilega litlar og meðalstórar íbúðir á markaðinn og verðið á þeim ýtist upp.

Allt ber það að sama brunni að leiguverðið er auðvitað orðið mjög hátt og það er dálítið öfugsnúið að standa frammi fyrir dæmum þar sem ungt fólk sem er að reyna að koma sér fyrir í húsnæði, kannski í fyrsta sinn, stendur frammi fyrir þeim kostum annars vegar að leigja fyrir 200 þús. kr. plús á mánuði tiltölulega litlar íbúðir, eða að reyna að kaupa sambærilega íbúð og þá er útkoman úr dæminu oft sú að afborgun af láni vegna þeirrar sömu íbúðar, sem kostar 200 þús. plús að leigja, er ekki nema 150 þúsund á mánuði. En vandinn er sá að til þess að fá lánin þarftu að eiga 5, 6 milljónir sem eigið fé. Þetta er staðan. Það er ekki auðvelt fyrir fólk sem er þá ekki það vel sett að hafa getað lagt fyrir eða átt góða að að reiða fram 5, 6 milljónir, fólk nýkomið úr námi, fólk sem hefur verið á leigumarkaði og borgað himinháa leigu, hvernig á það að mynda þennan afgang? Og séreignarsparnaðarleiðin sem menn lofa hér mjög, jú, jú, bundin við þá sem hafa aðstöðu til þess að leggja fyrir í gegnum það með meðgjöf frá ríki og sveitarfélögum, en það tekur sinn tíma og leysir ekki úr ástandinu alveg í augnablikinu.

Þetta hefur teiknað upp stöðu sem er mjög alvarleg. Ég held að eina raunhæfa lausnin til að takast á við þetta sé auðvitað að þetta sé ekki svona algjör seljendamarkaður, að það séu leigusalarnir eða eigendur húsnæðisins sem ráði lögum og lofum og hinir mæti algjörum afgangi. Og hvað þarf til þess? Jú, það sem leigumarkaðurinn þarf, sem hefur auðvitað lengi verið allt of vanþróaður og tengist þeirri glórulausu áherslu á séreignarstefnu sem hér hefur um áratugaskeið verið rekin og hefur reynst þjóðinni misvel, held ég, þegar upp er staðið. Það hefur ekki alltaf reynst gróðavegur að ýta mönnum út í það að reyna að eignast sitt eigið húsnæði jafnvel með mjög lágar tekjur til að standa straum af því og taka á sig áföllin og sveiflurnar sem því geta fylgt og kostnaðinn sem því fylgir að eiga húsnæði sem menn gleyma oft í þessum útreikningum. Því að auðvitað er það þannig að það kostar meira en 150 þús. kr. afborganir af lánum af 25–28 millj. kr. íbúð að eiga hana. Það kostar líka að eiga og halda við húsnæðinu sem vissulega er í aðeins öðru samhengi þegar við tölum um leiguverðið. Svona er þetta nú samt.

Leigjendur þurfa auðvitað öryggi. Það er að einhverju leyti verið að taka á því í frumvarpinu, það er ágætt. Þeir þurfa viðráðanlegt verð sett í samhengi við lífskjörin í landinu. Út af fyrir sig væri 200 þús. kr. á mánuði fyrir 70 fermetra íbúð, það þætti sjálfsagt ekki há leiga ef maður væri á norsku kaupi, en við erum bara því miður á íslensku kaupi. Um hvað er verið að slást þessa dagana? Er það ekki að koma lægstu launum í landinu upp úr 204 þús. kr., sem dugar varla fyrir leigu á þriggja herbergja íbúð á miðsvæðinu í Reykjavík? Á hverju á fólk þá að lifa ef hver einasta króna sem það hefur í kaup, meira að segja áður en kemur að sköttum, ef það væri nú bara á þessum allra lægstu launum, færi í leigu? Síðan vantar greinilega miklu fjölbreyttari möguleika. Ég held að augljóst sé að það sem kæmi þessum markaði best væri stóraukið framboð á litlum íbúðum og í raun og veru kannski litlum og meðalstórum íbúðum. Þar er vöntunin mjög mikil.

Er þetta frumvarp innlegg í að leysa þann vanda? Ja, ágætt sem það er að bæta réttarstöðu leigjenda að einhverju leyti mundu menn kannski hugsa sem svo: Mun það í sjálfu sér auka framboð á leiguhúsnæði að styrkja réttarstöðu leigjenda jafn réttmætt og það getur verið? Það er ekki endilega víst. Kannski hugsa leigusalarnir: Bíddu, það er nú lítið í þessu fyrir okkur, það er ekki verið að gera þetta girnilegra í sjálfu sér að fjárfesta í leiguhúsnæði ef við þurfum að undirgangast ríkari skyldur og meiri kvaðir gagnvart viðskiptavinum okkar.

Ég held að ráðast þurfi að rótum þessa vanda með mjög fjölþættu átaki. Eitt finnst mér að menn hafi litið of mikið fram hjá og það er mikilvægi þess að að einhverju leyti nálgist menn þetta út frá þörfum mismunandi hópa, eins og jafnan hefur verið þegar ráðist hefur verið í stórátök í húsnæðismálum sem eftir standa. Þá hafa menn brugðist við einhverju ástandi og ráðist að rótum þess vanda með það að markmiði að leysa þarfir þeirra sem í hlut ættu, hvort sem það væru námsmenn, tekjulágt fólk, verkamenn, verkamannabústaðir, aldraðir, öryrkjar eða aðrir slíkir aðilar. Það gæti verið verulegt innlegg í lausn þessa vanda að menn væru líka að keyra öflug átök, sértækari átök, t.d. að stórauka byggingar á stúdentagörðum þannig að miklu stærri hluti námsmanna í þeim sveitarfélögum þar sem stórir skólar eru, í Reykjavík, á Akureyri og víðar þar sem háskólar eru og námsmenn þurfa húsnæði, að þau væru leyst í gegnum slíkt. Þá léttir það á þrýstingnum á almenna leigumarkaðnum. Sama má segja um íbúðir fyrir aldraða eða húsnæði sérhannað fyrir þarfir öryrkja o.s.frv. um leið og við fáum þá góðar lausnir fyrir þá hópa og sniðnar að þeim, félagslegt leiguhúsnæði sem sveitarfélögin eru þá að bjóða tekjulágu fólki, þeirra sem erfiðastar hafa aðstæður, að auka líka framboðið á því og reyna að létta með þeim ráðum á hinum „almenna leigumarkaði“ ef við fjöllum þannig um það sem eftir stendur. Þannig að leigufélög og félagasamtök, húsnæðissamvinnufélög, sjálfseignarstofnanir, hafa og geta lyft grettistaki í þessum efnum. Eða hvar værum við stödd, hvernig væri ástandið í húsnæðismálum öryrkja ef menn hefðu ekki af þeim mikla krafti sem menn á 7., 8. og 9. áratugnum fóru í að byggja sérstakt húsnæði fyrir þá? Það kostaði átök á sínum tíma þegar forustumenn Öryrkjabandalagsins veðsettu sín eigin hús til að fá lán til að geta byggt í Hátúni. Þá var andinn sá að menn gengu í málin og lyftu grettistaki. Ég sakna því þess að horft sé á þetta með víðari sjóndeildarhring að þessu leyti. Það er ekki til bóta ef það er rétt, sem ég er enginn sérfræðingur í vel að merkja, ég tek það fram, að 3. mgr. í 2. gr. sem á að fella brott setji þetta í eitthvert uppnám.

Já, ég nefndi sjálfseignarstefnuna, frú forseti, vegna þess að það er óralangt síðan ég komst að þeirri niðurstöðu að þessi glórulausa áhersla á hana hér hjá okkur, sem hefur gert íslenskan fasteignamarkað dálítið sérstakan, hafi verið til lítils velfarnaðar eins og hún hefur verið rekin. Menn hafa alltaf verið að rembast við að reyna að finna leiðir til að láta tekjulágt fólk, sem átti jafnvel ekki fyrir neinni útborgun, reyna að eignast húsnæði, sem er mjög erfitt, og þegar lítið er afgangs til að lifa sómasamlegu lífi ef fólk er á pappírnum, að minnsta kosti að nafninu til, að reyna að eignast húsnæði. Sú eign hefur stundum farið fyrir lítið eins og kunnugt er.

Ég held að stórfelld afturför hafi orðið í húsnæðismálum landsmanna frá því Húsnæðisstofnun ríkisins var á dögum og menn höfðu Byggingarsjóð verkamanna og almennan sjóð. Byggingarsjóður verkamanna var sérstaklega sniðinn að þörfum þeirra sem lægri höfðu tekjurnar, bæði með félagslegt leiguhúsnæði og félagslegt eignarhúsnæði, og reglurnar útfærðar í samræmi við það, menn lögðu inn í kerfið stuðning í formi lágra vaxta sem var auðvitað hinn mikli stuðningur sem menn fengu þar. Þessu var öllu stútað og menn trúðu á markaðinn.

Hvernig hefur markaðurinn leyst það verkefni fyrir Ísland? Eigum við að ræða það aðeins? Það er skaði að hafa ekki meira af sjálfstæðismönnum eða frjálshyggjumönnum hérna í salnum. Eigum við að fara aðeins yfir það hvernig markaðurinn, hann herra markaður, hefur leyst húsnæðismál á Íslandi? Er hann að gera það með glæsibrag? Er hann að gera það í Reykjavík? Gerði hann það á árunum kringum hrunið? Eða hefur hann gert það yfirleitt? Er hann að gera það á landsbyggðinni? Nei, ætli það. Þar er náttúrlega alveg sérstök staða uppi sem er efni í aðra ræðu. Þar er sú erfiða staða að núna skortir mjög víða endurnýjun á húsnæði og viðbótarhúsnæði í fjölmörgum byggðarlögum á landsbyggðinni. En með örfáum undantekningum þar sem Akureyri stendur upp úr, þá er sáralítið byggt af eðlilegum ástæðum því að menn eru ekkert ginnkeyptir fyrir því að taka á sig afföllin sem því eru samfara að byggja sitt eigið húsnæði eins og fasteignamarkaðurinn er þar.

Bændur í sveit eiga lítið val. Ef þeir vilja koma sér upp sómasamlegu húsnæði þá byggja þeir það. Einstöku djarfhuga maður hefur verið að gera það á undanförnum árum. Ég þekki dæmi þar sem menn byggðu hús sem kannski að brunabótamati stóð í 50, 60 milljónum þegar flutt var inn í það, en fasteignamatið var 12 milljónir. Þannig var fasteignamarkaðurinn þar. Þá eru menn auðvitað ekki að láta það svo sem trufla sig af því að þeir ætla að búa í húsinu sínu. Stundum eru menn of uppteknir af því hvað þeir eigi á pappírnum ef tilgangurinn er að koma sér upp húsnæði og búa í því en horfa ekki á eign á pappír.

Engu að síður er þetta þannig að hin glórulausa sjálfseignarstefna sem maður batt vissar vonir við, að þetta viðamikla starf allt saman og nefndir allar sem hafa verið í þessum húsnæðismálum, og vissulega frá því fyrir daga núverandi félagsmálaráðherra hafa menn verið að reyna að sjá eitthvað fram úr þessu, að menn hefðu lært svolítið af reynslunni og það yrði sett átak og kraftur í það að efla hér félagsleg úrræði og leigumarkað. En svo mikið er víst að í þessum tveimur frumvörpum (Forseti hringir.) um breytingu á húsaleigulögum og um húsnæðissamvinnufélög, stendur ekki til að ein einasta króna fari frá ríkinu inn í málaflokkinn. Það segir kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins í báðum tilvikum.