144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsaleigulög.

696. mál
[17:45]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna hér um breytingar á húsaleigulögum. Það eru nokkur atriði sem ég mundi vilja fara í gegnum áður en málið fer til meðferðar hjá velferðarnefnd.

Við höfum fengið þó nokkrar ábendingar við vinnslu málsins, sem við höfum verið að vinna í eða huga að með einum eða öðrum hætti — þau snúa kannski ekki beint að húsaleigulögunum, þeim lagaramma sem þar er til staðar — eða erum enn að skoða hvernig best væri að útfæra. Þar vil ég nefna sérstaklega umræðuna um það hvernig taka eigi á ágreiningi á milli leigusala og leigjenda. Það geta komið upp mjög erfið mál. Það gildir að vísu líka um ágreining innan húsfélaga en úrskurðarnefnd hefur úrskurðað í þeim ágreiningsmálum sem eru á milli einkaaðila. Núna liggur fyrir tillaga í velferðarnefnd um að sameina um sjö eða átta úrskurðarnefndir á vegum velferðarráðuneytisins í eina úrskurðarnefnd; þar á meðal er lagt til að úrskurðarnefnd húsnæðismála fari þar undir, en við eigum eftir að sjá til hvernig velferðarnefnd tekur á því.

Það hefur ekki verið þannig að úrskurðir þessara nefnda hafi verið bindandi en að sjálfsögðu væntum við þess að menn fari að úrskurðum. Þeir hafa sem sagt ekki haft nein bein réttaráhrif. Við erum að skoða það núna og báðum réttarfarsnefnd, sem hefur starfað á vegum innanríkisráðuneytisins, að skoða möguleikann á því hvort niðurstaða gerðardóms, ef ágreiningsaðilar eru sammála um að setja málið í þann farveg, gæti verið bindandi fyrir þá sem takast á um hin ýmsu mál sem varða þetta samningssamband. Við erum enn þá að bíða eftir því að fá niðurstöðu um hvort þetta sé leið sem hægt sé að nýta en gerðardómur hefur ekki verið nýttur sérstaklega mikið þegar kemur að úrlausn ágreiningsmála.

Ég vil líka nefna önnur atriði sem voru töluvert nefnd en falla undir innanríkisráðherra. Leigusalar hafa lagt töluverða áherslu á að þegar það verða vanefndir á leigusamningi þá sé hægt að stytta ferilinn frá því vanefndirnar koma upp uns hægt er að bera fólk út. Eitt af því sem er verið að skoða núna er hvort það sé mögulegt. Það er mikið álag á öllu réttarkerfinu og þetta gæti aukið álagið enn frekar. Það þyrfti líka að vega og meta hvort það sé réttlátt að taka þessi mál fram fyrir önnur mál sem tekist er á um.

Annað atriði sem hefur líka verið bent á er réttarstaða leigjenda við nauðungarsölu. Það frumvarp hefur verið í umsagnarferli hjá innanríkisráðuneytinu og gengur út á að jafna réttarstöðu leigjenda við eigendur. Núna er það þannig að þegar eigendur missa húsnæði sitt eiga þeir möguleika á því að vera þar áfram í allt að tólf mánuði. Þetta er eitt af því sem við teljum rétt að skoða og hvað snúi að réttarstöðu búseturéttarhafa við nauðungarsölu á eignum.

Ég tók líka fram í ræðu minni að við höfum fundað með stærstu leigufélögunum sem hafa nýtt sér ákvæði 2. gr. sem hér er lagt til að verði felld niður. Að einhverju leyti hefur verið misskilningur, eins og í máli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, um að þetta geti gert það að verkum að erfitt verði fyrir félög að velja hverjir leigja hjá þeim. Það mun ekkert breytast við þetta, áfram verður leigusölum frjálst að velja hverjum þeir leigja. Það er hins vegar ástæða til að skoða það sem snýr að auknum skyldum eða kröfum um upplýsingar, t.d. hvað varðar tekjur meðan á leigusambandinu stendur, þ.e. hvort það væri eitt af þeim ákvæðum sem væri hægt að skoða.

Síðan vil ég líka benda á að í tillögum ASÍ, um félagslega uppbyggingu á húsnæðismarkaði, hefur eitt af því sem það hefur lagt áherslu á og bent á verið fyrirmyndir í Danmörku, að það sé spurning hvort eigi raunverulega að gera ráð fyrir því þegar einstaklingur er á annað borð kominn inn í félagslegt kerfi að ýta honum út ef félagslegar aðstæður viðkomandi breytast. Það held ég að tengist að miklu leyti því að við þurfum að sjá fleiri íbúðir þarna undir en staðreyndin er einfaldlega sú að mjög lítið hefur bæst við af íbúðum inn í það sem við skilgreinum almennt sem félagslegt leiguíbúðakerfi á undanförnum árum. Þeir fjármunir sem hefur verið ráðstafað af ríkinu til þess að niðurgreiða félagsleg lán hafa ekki gengið út, jafnvel þeir fjármunir sem hafa verið til ráðstöfunar gengu ekki út á undanförnum árum, en það hefur sem betur fer aðeins verið að breytast undanfarin missiri.

Það sem ég vil líka leggja áherslu á er að eitt af því sem hefur reynst okkur eilítið erfitt hvað varðar einstaka aðila sem hafa tjáð sig um frumvarpið, en það er að fá efnislegar athugasemdir við breytingarnar. Ég hvet velferðarnefnd eindregið í því umsagnarferli til að koma fram með tillögur um það hvernig sé hægt að bæta frumvarpið og fara þá inn í einstakar greinar frumvarpsins svo að hægt sé að taka á því sem umsagnaraðilar kunna að hafa athugasemdir við.

Dæmi um það sem hefur verið rætt hér er það sem snýr að námsmönnum. Í langflestum tilvikum eru gerðir tímabundnir leigusamningar. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það í núverandi lögum eða með lagabreytingunum að sett séu inn ákvæði sem segja að við sérstakar aðstæður sé hægt að segja fólki upp með þriggja mánaða fyrirvara. Ég held að við í velferðarráðuneytinu þurfum að kynna betur núverandi lög því að það hefur að mínu mati komið fram í umræðu um húsaleigulögin og hefur þar af leiðandi smitast yfir í frumvarpið sjálft. Það er eins og fólk þekki ekki nógu vel þá réttarvernd sem er til staðar í núverandi lagaumhverfi. Þá veltir maður náttúrlega fyrir sér hvort menn hafi raunverulega farið eftir því.

Síðan vil ég vil nefna eitt í viðbót. Það er það sem við höfum verið að ræða og hefur ekki verið á þingmálaskrá á þessu þingi, hvort það sé rétt að setja lög sem eru utan um rekstrarformið leigufélög. Ég efast ekki um að það yrði örugglega mjög umdeilt þegar það frumvarp kæmi fram, en mjög margar af þeim athugasemdum sem bárust sneru eiginlega meira að hugsanlegum lagaramma utan um svoleiðis frumvarp, sam sagt rekstrarform leigufélaganna sjálfra. Ég hef sjálf verið mjög hugsi yfir því. Það er eitt af því sem við erum að reyna að taka á, t.d. því með sem snýr að tryggingunum, að ramma betur hvað er hægt að rukka leigjendur um í upphafi. Við erum með dæmi um félagaform þar sem hefur verið farið algjörlega á svig við bæði lög um húsnæðissamvinnufélög og má segja þann lagaramma sem við erum að reyna að setja utan um leigusamninga þar sem fólk sem fellur raunverulega núna undir undanþáguákvæði 2. gr., t.d. aldraðir sem hafa lagt fram fleiri tugi milljóna, nánast andvirði eigna sinna og endað á að kaupa að þeirra mati réttinn til þess að búa í viðkomandi eign, en það er ekki húsnæðissamvinnufélag; þeir hafa raunar lagt út fyrir andvirði eignarinnar en hafa staðið uppi með að réttarstaða þeirra er nánast verri en leigjenda. Þetta hefur verið kallað notendaréttur að leiguíbúðum og kom inn aftur í lög um Íbúðalánasjóð 2007, sem sagt varðandi fjármögnun á svoleiðis húsnæði, en hafði verið bannað frá 2003. Ég hef séð samninga sem viðkomandi félög hafa gert þar sem er talað um þennan notendarétt sem búseturétt en hann hefur alls ekki uppfyllt skilyrði húsnæðissamvinnufélaga þannig að réttarstaða viðkomandi hefur minnt mest á leigjendur nema fólk borgaði í raun og veru andvirði eignarinnar. Þetta er ástæðan fyrir því að maður hefur verið að velta alvarlega fyrir sér hvort það þurfi að afmarka betur hvað leigufélag er og hvað húsnæðissamvinnufélag er, sem við tökum umræðu um á eftir, og síðan þriðja rekstrarformið þegar fólk á sitt eigið húsnæði.

Töluvert af þeim athugasemdum sem við höfum fengið frá leigjendum snýr að skilgreiningu á því hvað sé leiguíbúð, hvað búseturéttaríbúð og hvað eignaríbúð — það fellur í raun frekar undir málasvið umhverfis- og auðlindaráðherra — og að jafnvel sé í einhverjum tilvikum gengið verulega á eignarrétt eigenda íbúðarhúsnæðis annaðhvort til þess að selja eða leigja. Við munum vinna áfram að þessu. Þetta eru viðamikil mál. Þau frumvörp sem við höfum verið að vinna eru held ég hvert um sig tíu greinar. Ég vil nota tækifærið hér og þakka starfsmönnum velferðarráðuneytisins fyrir þeirra miklu vinnu að þessum málum. Þetta er ekki búið að vera auðvelt þar sem tekin hefur verið afstaða til mjög ólíkra sjónarmiða. Það hefur verið einkar ánægjulegt að fá að vinna með þessu hæfa starfsfólki sem hefur lagt sig allt fram við að vinna þetta mál eins vel og hægt er. Við verðum að sjálfsögðu reiðubúin til þess að aðstoða velferðarnefnd eins og við mögulega getum við breytingar á frumvarpinu þannig að við gerum það eins gott og það getur mögulega orðið. Ef það er eitthvað sem við getum gert þá get ég fullvissað fulltrúa velferðarnefndar sem hér sitja að við verðum til staðar hvað það varðar.