144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra ræðuna. Þetta er allumfangsmikið frumvarp og miklar breytingar sem verið er að gera á lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Þarna er verið að rýmka heimildir til sjálfsákvörðunar félaganna til þess að gefa meiri sveigjanleika þannig að félögin fái sjálf að ákveða rekstrarmódel, en jafnframt er dregið úr hlutverki ráðuneytisins varðandi samþykktir félaganna. Þær verða nú ekki staðfestar af ráðuneytinu heldur eingöngu hjá ríkisskattstjóra. Það kann að vera ágætisfyrirkomulag.

Ég velti fyrir mér í ljósi þess að nokkur húsnæðissamvinnufélög, ekki öll, hafa farið illa og standa höllum fæti: Hver verður í því hlutverki að hafa eftirlit með þessum félögum? Það eru auðvitað stjórnir í félögunum, stjórnin ber ábyrgð og svo er það félagsmanna að spyrja stjórnina ef eitthvað fer úrskeiðis. Hver er eiginlegur eftirlitsaðili á vegum opinberra aðila með þessum félögum? Verið er að draga úr hlutverki ráðuneytisins og ekki er frumvarp í þinginu núna um sérstaka húsnæðisstofnun sem sem gæti þá verið til þess fallin að fara með húsnæðisstefnu stjórnvalda og húsnæðismál. Ég held ég láti þetta duga í bili. Hvernig verður eftirliti hins opinbera háttað með þessum félögum?