144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eitt lykilhugtakið í samvinnuhugsjóninni er sjálfsábyrgð. Það er talað um samfélagslega ábyrgð, en það er líka talað um sjálfsábyrgð. Hver félagsmaður í samvinnufélagi þarf að gera sér grein fyrir því að þátttaka hans og virkni skiptir lykilmáli í því að það gangi vel hjá félaginu. Þannig er þetta ólíkt því sem er með hefðbundið leigufélag eða leigusamband, því að hér eru það félagsmennirnir sjálfir sem taka ákvörðunina og kjósa sér stjórn félagsins. Þó að velferðarráðuneytið hafi haft það hlutverk, samkvæmt núgildandi lögum, að staðfesta samþykktirnar hefur ráðuneytið ekki haft eftirlit með starfsemi þessara félaga. Það var niðurstaða okkar að líkt og með önnur rekstrarform sé það þannig að til þess að geta skráð félag sem húsnæðissamvinnufélag þarf að leggja fram samþykktir og þá er það fyrirtækjaskrá sem hefur það hlutverk að fara yfir það hvort samþykktirnar séu í samræmi við þau lög sem gilda um viðkomandi rekstrarform.

Niðurstaða okkar var sú að með því að koma með þá þætti sem snúa að úttektinni, og líka þessar auknu kröfur um skyldu félagsins til að upplýsa félagsmenn þegar þeir undirrita samning um búseturéttinn, ættu félagsmenn að gera sér betur grein fyrir því að ákvarðanir þeirra varða ekki bara félagið, þetta varðar þeirra eigin íbúð, þetta varðar raunar hvernig staðan verður og ábyrgðin er þá þeirra.