144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé bara eitt af því sem nefndin verður að skoða í meðferð málsins, þær ábendingar sem hv. þingmaður kemur hér með. Ég legg áherslu á að þetta er mjög viðamikið frumvarp. Það er verið að gera stórar efnislegar breytingar á lögunum. Við þekkjum það alveg í ljósi sögunnar að breytingar sem maður kannski taldi að væru ekki svo stórar, þegar verið var að afgreiða þær, reyndust hafa gífurleg áhrif. Hér eru, eins og ég talaði um, tugir milljarða sem geta verið undir í einu félagi og þess vegna er þarna viðleitni til að gera auknar kröfur til stjórnar, auknar kröfur til framkvæmdastjóra, auknar kröfur til félagsmannanna sjálfra, að átta sig á því hvað þau eru að gera þarna. Að sama skapi verður ábyrgð einstaklingsins aldrei meiri en búseturétturinn sjálfur eða gjaldið sem greitt er fyrir búseturéttinn. Þar með er það líka takmarkað gagnvart öðrum skuldbindingum félagsins. En þetta er eitthvað sem ég veit að nefndin mun fara vel yfir.