144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:28]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Umrætt frumvarp er byggt á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála en eins og fram hefur komið skipaði hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra umrædda verkefnisstjórn í september 2013 og skilaði hún tillögum í maí 2014.

Ég sat í verkefnisstjórninni og var það bæði lærdómsríkur og skemmtilegur tími og ég vil nota þennan vettvang til að þakka það traust sem mér var veitt til að vinna að þessum mikilvægu málum. Nokkur gagnrýni hefur komið fram á að langur tími hafi liðið frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér þar til þessi frumvörp, er varða leigumarkaðinn, litu dagsins ljós. Í því samhengi vil ég segja að um er að ræða flókin mál og í vinnunni hefur einstaklega mikið samráð verið haft við hina ýmsu hlutaðeigandi aðila sem hafa mismunandi sjónarhorn og mismunandi sjónarmið varðandi þessa þætti.

Ekki þarf að horfa lengra en aftur til síðasta kjörtímabils þegar mikil og góð vinna átti sér stað í nefndum og við skýrsluskrif er varða hugmyndir og tillögur að bættum leigumarkaði en engin frumvörp litu dagsins ljós. Það sýnir að þetta er afar flókið ferli og horfa verður til ýmissa mismunandi þátta og mismunandi sjónarhorna einstaklinga og félaga. Frumvarpið, sem hér um ræðir, er um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög en það er eitt af fjórum frumvörpum er varða leigumarkaðinn.

Eitt af þessum fjórum frumvörpum var hér í 1. umr. í þinginu fyrr í dag og þar átti sér stað mikil og góð umræða um málið. Því hefur nú verið vísað til velferðarnefndar þingsins en það fjallar um breytingar á húsaleigulögum. Eins og fram hefur komið eru tvö frumvörp af fjórum stopp eins og er í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu og fjalla þau um húsnæðisbætur, sem er stóraukinn stuðningur við þá sem eru á leigumarkaði, og einnig fjalla þau um stofnstyrki til leigufélaga sem eru rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Þessi fjögur frumvörp tengjast öll og hafa ákveðna snertifleti og því væri afar gott ef öll frumvörpin í einu kæmust á ákveðnum tímapunkti til umræðu í velferðarnefnd þingsins. Frumvarpinu sem hér um ræðir verður vísað til velferðarnefndar þingsins og ég er þess fullviss að góð samstaða muni ríkja milli nefndarmanna og samstaða um að klára frumvarpið vel.

Ég ætla í ræðu minni að fara örlítið í þann kafla frumvarpsins er lýtur að athugasemdum við greinar þess. Frumvarpið sem hér um ræðir fjallar um breytingar á lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög, með síðari breytingum, en frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði fulltrúa húsnæðissamvinnufélaga, Búseta hsf., Búseta á Norðurlandi hsf. og Búmanna hsf. Auk þessa var mikið samráð haft í vinnu verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, mikið af undirhópum störfuðu undir stjórninni sjálfri þar sem ýmsir hagsmunaaðilar og hlutaðeigandi aðilar komu að borðinu og unnu með stjórninni.

Meginefni frumvarpsins er ætlað að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi, en mikilvægt er að markmiðið með rekstri slíkra félaga sé að sem flestir geti búið við öryggi í húsnæðismálum og að jafnræði ríki meðal félagsmanna þeirra við kaup á búseturétti. Ég fagna því verulega að frumvarpið sé komið fram og miklar breytingar á því, því að það er afar mikilvægt að styrkja grunn þessara félaga. Það er góð hugmynd að baki þessu búsetuformi og afar mikilvægt að allir þeir sem eru á húsnæðismarkaði búi við raunhæft val í húsnæðismálum, hvort þeir vilji vera á leigumarkaði, búa í eigin húsnæði eða fara þá millileið sem húsnæðissamvinnufélögin bjóða upp á.

Í frumvarpinu segir:

„… mikilvægt [er] að húsnæðissamvinnufélög hafi svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði hér á landi og hafi þannig möguleika á að haga reglum félagsins og rekstrarlíkani með þeim hætti sem félagsmenn telja hæfa félaginu. Er með frumvarpinu leitast við að skilgreina þau atriði sem húsnæðissamvinnufélög skulu útfæra nánar í samþykktum sínum með þeim hætti sem félagsmenn kjósa og telja hag félagsins best borgið. Lagt er til að nákvæmari ákvæði verði í samþykktum húsnæðissamvinnufélaga um fjármál þeirra, þar á meðal um stofnsjóð þeirra, rekstrarsjóð, varasjóð og viðhaldssjóð þar sem hlutverk þessara sjóða eru nánar skilgreind sem og hvernig þeir eru fjármagnaðir.“

Samkvæmt frumvarpinu er að vissu leyti verið að færa ákveðið vald í hendur félagsmanna húsnæðissamvinnufélaganna fremur en að mælt sé fyrir um það með skýrum hætti í lögum. Það er afar mikilvægt, í ljósi sögunnar og í ljósi atburða sem hafa átt sér stað innan ákveðinna húsnæðissamvinnufélaga hér á landi, að félagsmenn félaganna hafi meira vald, séu upplýstir betur um alla fjárhagslega stöðu félagsins o.fl. Segjum að félag eigi til dæmis í ákveðnum rekstrarvanda eða einhvers konar þannig atriði komi upp að þá séu félagsmenn upplýstir um stöðuna áður en allt fer í kaldakol.

Þetta er ákveðin rammalöggjöf og félagsmenn hvers félags geta haft áhrif á hvernig samþykkt hvers félags er út af fyrir sig. En það er afar mikilvægt, þar sem einstaklingar eru að setja mikla fjármuni, margir jafnvel ævisparnaðinn, í þessi félög, að þeir hafi um það að segja hvaða ákvarðanir stjórnir félaganna taka. Ég hef setið nokkra fundi hjá ákveðnum húsnæðissamvinnufélögum þar sem þessi lög hafa verið til umræðu og hjá ákveðnu félagi, sem hefur átt í rekstrarvanda, hefur verið mikil ánægja með að ákvörðunarvaldið sé fært meira til félagsmanna upp á gagnsæi og að vörður sé staðinn um ákvörðunartöku.

Þrátt fyrir að verið sé að opna á meiri þátttöku félagsmanna er mjög mikilvægt að ákveðinn hluti sé samt sem áður í lögum, en í frumvarpinu segir:

„Engu að síður er talið nauðsynlegt að lögfest verði ákvæði um tiltekin atriði sem stuðlað geti að sjálfbærum rekstri húsnæðissamvinnufélaga ásamt því að veita rekstri þeirra ákveðið aðhald. Er til dæmis lagt til að kveðið verði á um að óheimilt verði að greiða fé úr húsnæðissamvinnufélagi til þeirra sem að félaginu standa sem arð eða hvers konar ígildi arðs en þess í stað er gert ráð fyrir að rekstrarafgangi verði varið til vaxtar og viðhalds félagsins, svo sem til niðurgreiðslu lána þess. Enn fremur er lagt til að mælt verði fyrir um að húsnæðissamvinnufélögum verði óheimilt að kveða á um kaupskyldu félagsins á búseturétti í samþykktum sínum og búsetusamningum.“

Þarna komum við líka að mikilvægu atriði, það eru mörg húsnæðissamvinnufélög sem hafa afnumið kaupskyldu fyrir einhverjum árum en þó er það eitthvað misjafnt á milli félaganna. Sýnt hefur verið fram á, þegar ákveðið ástand er á markaðnum, að það geti verið íþyngjandi fyrir fjárhag félagsins að þurfa að kaupa félaga út úr félaginu. En eins og fram kom í ræðu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra þá getur það komið fram í samþykktum félagsins að ef fjárhagur félagsins leyfir og verulegt svigrúm sé til staðar sé undir vissum kringumstæðum hægt að kaupa út.

Í frumvarpinu, það sem viðkemur lagalegri hlið þess, segir að:

„Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um skyldu húsnæðissamvinnufélags til að framkvæma reglubundnar úttektir á fjárhag sínum, skuldbindingum og starfsemi félagsins en slík reglubundin úttekt gæti leitt til þess að unnt verði að grípa inn í fjármál húsnæðissamvinnufélags áður en í óefni er komið í rekstri þess. Má ætla að slíkar úttektir nýtist félögum í því skyni að upplýsa félagsmenn um stöðu félagsins hverju sinni.“

Því miður virðist einhver misbrestur hafa orðið á þessum þáttum hingað til.

Lagt er til að nánar verði kveðið á um skipun og hlutverk stjórna húsnæðissamvinnufélaga. Það þykir mikilvægt bæði fyrir þá aðila sem taka að sér stjórnarsetu í húsnæðissamvinnufélögum og fyrir félagsmenn alla. Jafnframt er gert ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélög fjalli í samþykktum sínum nánar um hlutverk og val stjórna. Lagt er til að beinlínis verði kveðið á um að þeir sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd húsnæðissamvinnufélags megi ekki gera þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum félagsmönnum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsmanna eða félagsins, enda forsenda reksturs húsnæðissamvinnufélaga að allir félagsmenn séu þátttakendur í félaginu á jafnréttisgrundvelli. Þetta ákvæði hefur, á þeim fundum sem ég hef setið, fengið afar góð viðbrögð, um upplýsingaskyldu og þátttöku félagsmanna.

Jafnframt er talað um það í frumvarpinu og lagt til að búseturéttargjald geti að hámarki numið þeirri fjárhæð sem jafngildir þriðjungi af markaðsvirði viðkomandi búsetuíbúðar við kaup búseturéttar. Með frumvarpinu er jafnframt leitast við að skýra réttarstöðu félagsmanna húsnæðissamvinnufélaga sem og félaganna sjálfra, svo sem við inngöngu félagsmanna í félagið og ef hjónaskilnaðir verða, andlát og þess háttar.

Það eru ýmsir fleiri þættir þarna, þetta er mjög viðamikið frumvarp. Þarna er jafnframt lagt til hvernig eigi að haga málum varðandi þá sem eru 18 ára og yngri, ef foreldrar skrá börn sín í húsnæðissamvinnufélög, hvernig það eigi að vera, hvernig sé með réttindi við andlát maka og margt fleira. Ég held að það verði mjög gagnlegt og gott að fá frumvarpið til velferðarnefndar þingsins. Því ber að fagna að mikið samráð hefur verið haft við marga aðila við vinnslu frumvarpsins. Verði frumvarpið að lögum munu áhrif laganna einkum felast í því að húsnæðissamvinnufélög fá aukið svigrúm til að skapa sér sérstöðu á húsnæðismarkaði með því að haga reglum sínum og rekstrarlíkani á þann hátt sem best hentar hverju og einu félagi. Þannig eru líkur á að starfsemi húsnæðissamvinnufélaga eflist, sem mun leiða til þess að einstaklingar geti í auknum mæli haft raunverulegt val um búsetuform. Ég lít á það sem stærsta tilgang þessa frumvarps, þessara laga, að einstaklingar hafi val um búsetuform en við séum ekki öll steypt í sama formið. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg og okkur henta mismunandi leiðir.